„Svona á úrslitakeppnin að vera,“ segir Magnús Þór
„Strákarnir sýndu ótrúlegan karakter og gáfust aldrei upp,“ sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflvíkinga, eftir frábæran sigur á KR í framlengdum leik 104-103 í fjórða leik undanúrslita Iceland Express deildar karla í kvöld í Toyota höllinni í Keflavík.
„Það er alltaf von og þegar menn spila með kollinum og taka réttar ákvarðanir, þá getur þetta gerst. Sóknin var að ganga mjög vel upp hjá okkur og varnarlega séð stóðum við vaktina. Það er enginn sem ætlar að gefa eftir í síðasta leiknum. Menn eru búnir að vinna gríðarlega mikið fyrir þessu svo þetta verður bara svakalegt á fimmtudaginn,“ sagði Guðjón.
Leikurinn var í járnum mest allan tímann. Í lokin komust Keflvíkingar tveimur stigum yfir en KR-ingar náðu að jafna þegar um 8 sekúndur voru eftir. Keflvíkingar fengu eitt tækifæri á lokasekúndunum til að vinna en skot Serbans Ciric gekk ekki og fóru því var framlengt.
KR byrjaði mun betur í framlengingunni og setti tvo þrista í röð. Keflvíkingar komu svo einnig með tvo þrista og jöfnuðu leikinn. Eftir spennandi framlengingu komust Keflvíkingar einu stigi yfir í blá lokin þrátt fyrir að hafa klikkað á fjórum vítum á lokasprettinum. KR náði ekki að skora stig á lokasekúndunum og voru lokatölur 104-103 og Keflvíkingar búnir að jafna einvígið 2-2. Það verður því blásið til oddaleiks í DHL höllinni á fimmtudaginn og ætti enginn að láta sig vanta þar miðað við fjörið í fjórða leiknum.
Magnús Þór Gunnarsson var stigahæstur Keflvíkinga í leiknum með 29 stig en hann sagði úrslitakeppnina eiga að vera nákvæmlega svona. „Körfuboltinn er æðislegur. Við trúðum alltaf á þetta og gáfumst aldrei upp. Það er eitthvað sem við erum búnir að læra að gefast ekki upp og þess vegna erum við komnir í 2-2,“ sagði Magnús.
[email protected]