Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Svíður að tapa stigum á heimavelli
Þriðjudagur 24. júlí 2012 kl. 10:04

Svíður að tapa stigum á heimavelli

Framherjinn Guðmundur Steinarsson var svo sem ekki kampakátur þegar Víkurfréttir náðu af honum tali, enda þurftu hans menn í Keflavík að sætta sig við ósigur á heimavelli gegn Fylkismönnum í mikilvægum leik í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í gær. Guðmundur sagði að það hefði vantað eitthvað uppá í gær og Fylkismenn hafi einfaldlega sýnt meiri baráttu. „Ég hélt að viljinn hefði verið til staðar hjá okkur en það virðist hafa verið erfitt að rífa mannskapinn upp í gær.“ Guðmundur sagði að vissulega hafi veðrið átt þar hlut að máli en það sé þó engin afsökun.

Nú þegar tímabilið er hálfnað eru Keflvíkingar í 8. sæti með 12 stig. Guðmundur er á því að næstu 2-3 umferðir muni ráða miklu um það hvernig málin þróast. „Þá kemur í ljós hverjir ætla að vera í baráttu um Evrópusæti og hverjir sogast í fallbaráttuna. Svo eru það liðin sem eru eins og á Ólympíuleikunum, bara með,“ sagði framherjinn léttur.

Hann segir Keflvíkinga nokkuð sátta við stöðuna en það svíði óneitanlega að hafa ekki náð að hala inn fleiri stigum á heimavelli, þá væri staðan vissulega betri.

Næsti leikur Keflvíkinga er grannaslagur gegn Grindvíkingum en þá leika Keflvíkingar einmitt á heimavelli. „Þeir slógu okkur út úr bikarnum og það ætti að vera nóg til þess að koma okkur í gír fyrir þann leik. Það verður gaman að takast á við Grindvíkinga eins og svo oft áður.“

Þegar Guðmundur var svo loks spurður út í það hvort hann teldi að Keflvíkingar þyrftu að styrkja hóp sinn fyrir lokaátökin, en félagaskiptaglugginn er galopinn um þessar mundir, þá var hann ekki svo viss um það. „Það er sjálfsagt pláss fyrir góða leikmenn í liði okkar en ég vil persónulega klára mótið með þessum hóp. Við eigum að vera nógu góðir til þess að ná að fylla í skörðin ef meiðsli ber að garði.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024