Sverrir Þór – ekki Sveppi: Þarf að setja eitthvað í Símakránna til að losna við þetta bull
,,Þetta hefur staðið yfir í nokkuð mörg ár og símtölin eru komin vel yfir hundraðið,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson landsliðsþjálfari og þjálfari kvennaliðs UMFN sem einn manna ber það nafn í Símaskránni. Annar er þó þekktari og vinsæll á meðal yngri kynslóða en sá er frægur skemmtikraftur og gengur undir nafninu Sveppi. Sverrir Þór Sverrisson er nafn sem þeir kumpánar deila en skemmtikrafturinn hefur ekki látið færa sig í Símaskránna.
Af þeim orsökum hefur þjálfarinn þurft að hafna hundruðum verkefna á borð við veislustjórnun og annað skemmtanahald enda gerir hann ekki út á slíkt.
,, Þetta er búið að vera í nokkuð mörg ár og var fyndið fyrst en er orðið hrikalega þreytt, það er mikið um hringingar þegar Sveppi er búinn að vera nýlega í sjónvarpinu en það er allur gangur á þessu og oft verið að reyna að fá mig sem veislustjóra og skemmtikraft á árshátíðir og skólaböll,“ sagði Sverrir Þór þjálfari sem hefur þó ekki enn farið svo langt að ræða kaup og kjör við viðmælendur sína sem telja sig vera að tala við Sveppa.
Fólk deyr þó ekki ráðalaust þegar það áttar sig á því að það hafi hringt í ,,skakkt“ númer:
,,Sumir spyrja hvort ég viti símann hjá Sveppa þegar ég segi þeim að ég sé ekki Sveppi sjálfur, verst er þegar krakkar hringja og trúa mér ekki þegar ég segist ekki vera Sveppi,“ sagði þjálfarinn í léttum tón. ,,Það er líka hringt í í heimasímann og talað við krakkana mína og spurt um Sveppa pabba þeirra, þetta eru orðin helvíti mörg símtöl. Ég þarf að fara að setja eitthvað í Símakránna til að losna við þetta bull,“ sagði Sverrir þjálfari.
Er þá ekki tilvalið að setja inn Sverrir Þór Sverrisson, EKKI SVEPPI:
,,Klárlega, sumir gætu samt haldið að þetta væri eitthvað blöff í skemmtikraftinum til að losna við áreiti í símanum,“ sagði þjálfarinn sem þó hefur gaman af því sem Sveppi hefur gert síðustu ár. ,,Ég hef gaman af nafna en það er ekkert eitt atriði sem ég man eftir með honum sem ég held upp á en hann er alltaf skemmtilegur í þeim þáttum sem hann kemur fram í.“
Frétt af Karfan.is