Sveinn nýr formaður Golfklúbbs Suðurnesja
Sveinn Björnsson var kjörinn formaður Golfklúbbs Suðurnesja en hann tekur við af Ólöfu Kristínu Sveinsdóttur sem gegnt hefur embættinu síðustu þrjú árin. Rekstur GS gekk vel á árinu. Aðalfundur klúbbsins var haldinn í golfskálanum 23. nóvember og sóttu rúmlega fjörutíu manns fundinn.
Í skýrslu stjórnar fór fráfarandi formaður yfir starf ársins sem var fjölbreytt og gekk vel. Mótahald hefur þó oft gengið betur en veðrið var ekki upp á það besta og kom niður á aðsókn í mót. Kvennastarfið hefur verið vaxandi í all nokkur ár og blómstrar í klúbbnum.
GS tók á árinu í notkun golfhermi í nýrri inniaðstöðu sem opnuð var í gömlu slökkvistöðinni í Keflavík í upphafi árs. Annar nýr golfhermir er tilbúinn og státar GS því af tveimur nýjum og fullkomnum hermum. Í inniaðstöðunni er einnig aðstaða til að slá í net og púttvöllur en Púttklúbbur Suðurnesja verður með aðstöðu í inniaðstöðu GS. Klúbburinn útnefndi í haust Gísla Grétar Björnsson sjálfboðaliða ársins en hann hefur farið fyrir vinnu við uppsetningu hermanna og inniaðstöðunnar í upphafi árs.
Klúbburinn hefur fjárfest mikið í vélum og tækjum á síðustu þremur árum og er staðan góð í þeim efnum.
Samstarf GS við Reykjanesbæ var gott en í sumar var skipt um þak á golfskálanum og framundan er lagfæring á Tjarnarkoti, sem er lítið hús m.a. með snyrtiaðstöðu við 10. teig.
Íþróttastarfið gekk mjög vel en yngsta afreksfólkið, þau Fjóla Margrét Viðarsdóttir og Logi Sigurðsson, náði mjög góðum árangri á árinu. Þau unnu nokkra stóra titla og voru valin kylfingar ársins hjá GS.
Fjárhagur klúbbsins er traustur og rekstur ársins skilaði 4,5 milljónum króna í hagnað. Félögum fækkaði aðeins og tekjur minnkuðu lítillega. Aðstæður í heimsfaraldri voru starfsemi GS hagfelldar tvö síðustu ár á undan.
Í máli Sveins Björnssonar sem var einn í kjöri til formanns kom fram að nú standi til að fara í framkvæmdir á Hólmsvelli og horfa til framtíðar með masterplan. Skipað hefur verið fagráð sem mun stýra þeirri vinnu í samvinnu við Edwin Roald, golfarkitekt.
Í stjórn GS fyrir komandi starfsár eru:
Sveinn Björnsson, formaður,
Karitas Sigurvinsdóttir,
Sigurður Sigurðsson,
Örn Ævar Hjartarson,
Páll M. Egonsson,
Róbert Sigurðsson,
Guðrún Þorsteinsdóttir,
Ólöf Einarsdóttir,
Gunnar Ellert Geirsson.
Auk nýs formanns þá hefur nýr framkvæmdastjóri verið ráðinn, Sverrir Auðunsson, en Andrea Ásgrímsdóttir, sem gegnt hefur starfinu í fjögur ár, sagði upp störfum á árinu.