Sveindís Jane með tvennu í bikarsigri
Sveindís Jane Jónsdóttir átti stórgóðan leik í fyrstu umferð sænsku bikarkeppninnar þegar Kristianstad sótti lið Alingsås heim. Leiknum lauk með fjögurra marka sigri Sveindísar og félaga.
Sveindís kom Kristianstad yfir þegar hún skoraði fyrsta mark leiksins á 17. mínútu eftir að hafa fengið sendingu inn fyrir vörn Alingsås. Fimm mínútum síðar tvöfaldaðist forysta Kristianstad þegar leikmaður heimaliðsins varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.
Í seinni hálfleik skoraði Mia Carlsson þriðja mark Kristianstad (60’) og tólf mínútum fyrir leikslok gerði Sveindís endanlega út um leikinn með glæsilegu skallamarki eftir góða sókn. Þá kom góð fyrirgjöf fyrir mark Alingsås og Keflvíkingurinn kastaði sér fram og skallaði í netið, lokatölur 4:0.