Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Sveindís Jane kom Íslandi yfir gegn Póllandi
Sveindís Jane Jónsdóttir lætur vaða á markið í leiknum gegn Póllandi. Mynd: Hafliði Breiðfjörð/Fótbolti.net
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 29. júní 2022 kl. 15:24

Sveindís Jane kom Íslandi yfir gegn Póllandi

Íslenska kvennalandsliðið lék vináttuleik við Pólland í dag og fór leikurinn fram í miklum hita í Póllandi. Eftir að hafa lent undir í fyrri hálfleik sýndu stelpurnar úr hverju þær eru gerðar og skoruðu þrjú mörk í þeim seinni, lokatölur 1:3 fyfir Íslandi. Þetta var síðasti æfingaleikur liðsins fyrir EM sem hefst á Englandi í næsta mánuði en stelpurnar halda nú til Þýskalands þar sem þær verða við æfingar til 6. júlí. Evrópumótið hefst þann 10. júlí og þá leikur Ísland gegn Belgíu í fyrsta leik.

Leikur Íslands var ekki sannfærandi í fyrri hálfleik og þær náðu ekki að sýna sitt rétta andlit. Pólverjar komust yfir með skyndisókn í blálokin (45') og fór með eins marks forystu inn í hálfleikinn.

Að lenda undir hressti stelpurnar heldur betur við því það var allt annar bragur á liðinu í seinni hálfleik og á 52. mínútu jafnaði Berglind Björk Þorvaldsdóttir metin eftir sendingu frá Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur sem vann boltann af andstæðingunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingurinn Sveindís Jane Jónsdóttir bætti um betur tveimur mínútum síðar (54') þegar hún óð inn í teig Póllands og smellti hörkuskoti í þaknetið, Ísland komið yfir.

Agla María Albertsdóttir rak smiðshöggið á góðan sigur Íslands með frábæru marki af um tuttugu metra færi en Öglu hafði verið skipt inn á um tíu mínútum fyrr.

Gott veganesti fyrir stelpurnar okkar sem eiga örugglega eftir að gera góða hluti á Evrópumótinu á Englandi í næsta mánuði.


Nánar um leikinn er að finna á Fótbolti.net