Sveindís Jane hefur skrifað undir hjá Wolfsburg
Fyrir jól komst sá orðrómur á kreik að ein allra efnilegasta knattspyrnukona landsins væri á leið til Wolfsburg í Þýskalandi. Wolfsburg sigraði þýsku Bundesliguna á síðasta tímabili auk þess að vinna þýska bikarmeistaratitilinn, þá hefur liðið hefur fimm sinnum komist í úrslit Meistaradeildinnar síðan 2012 og unnið hana tvisvar. Nú er það staðfest og Sveindís Jane Jónsdóttir hefur undirritað þriggja og hálfs árs samning við þýsku meistarana, eitt sterkasta lið Evrópu.
Í viðtali við VF sagðist Sveindís Jane vera mjög spennt og þakklát fyrir það tækifæri sem hún fær hjá þýska liðinu. „Ég gat ekki neitað þessu. Ég verð lánuð til Kristianstad í Svíþjóð fyrsta árið, Wolfsburg vildi tryggja sér mig og að ég spili í sterkari deild en er hér á Íslandi. Ég er mjög sátt með þetta skref.“
Sveindís Jane fór fyrir fjórum árum til Kristianstad til reynslu eftir að hafa slegið í gegn með Keflavík í næstefstu deild hér á landi svo hún er ekki ókunnn liðinu. Kristianstad er sem stendur í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar, Damallsvenskan.
Það er óhætt að segja að árið 2020 hafi verið ár Sveindísar Jane. Hún var lánuð frá Keflavík til Breiðabliks á síðasta tímabili og varð Íslandsmeistari með þeim, þá vann hún gullskóinn og var valin besti leikmaður Pepsi Max-deilarinnar. Sveindís kom sem nýliði inn í A-landslið kvenna þar sem hún fékk strax tækifæri í byrjunarliði og nýtti það til hins ítrasta, skoraði tvö mörk í sínum fyrsta landsleik gegn Lettum á Laugardalsvelli – síðan þá hefur hún verið einn af betri leikmönnum liðsins í leikjum landsliðins í haust og vakið verðskuldaða athygli erlendra liða.
Fréttatilkynning frá knattspyrnudeild Keflavíkur:
Sveindís Jane frá Keflavík til Wolfsburg
Knattspyrnudeild Keflavíkur og þýska stórliðið Wolfsburg hafa komist að samkomulagi um vistaskipti Sveindísar Jane Jónsdóttur til þýska liðsins. Sveindís sem er eingöngu 19 ára gömul vakti ung athygli á knattspyrnuvellinum og hefur verið einn besti leikmaður íslandsmótsins síðustu ár.
Hún hóf feril sinn hjá Keflavík og lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki einungis fjórtán ára gömul. Á síðasta tímabili eftir að Keflavíkurliðið féll úr efstu deild fór hún á láni til Breiðabliks sem spilar í efstu deild og var einn allra besti leikmaður liðsins og mótsins er það varð íslandsmeistari. Í sumar spilaði hún sautján leiki í deild og bikar og skoraði í þeim fimmtán mörk. Alls hefur Sveindís spilað 97 leiki í meistaraflokki og skorað í þeim 69 mörk. Þá lék hún sína fyrstu A landsleiki á árinu en alls hefur hún leikið fimm leiki með A landsliðinu og skorað í þeim tvö mörk. Auk þess hefur hún leikið 41 leik með yngri landsliðum Íslands og skorað í þeim 24 mörk.
Sigurður Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur: „Það er frábært að Sveindís sé að ná að láta drauminn rætast og semja við eitt af sterkustu knattspyrnuliðum heims. Hún hefur svo sannarlega unnið fyrir því og við keflavíkingar höfum lengi verið þess fullviss að hún myndi ná langt. Sveindís er sannur Keflvíkingur og frábær fyrirmynd fyrir yngri leikmenn og ekki síst þann gríðarlega mikla fjölda stúlkna sem nú æfir með yngri flokkum hjá okkur. Hún hefur verið reglulegur gestur í félagsheimilinu og á vellinum að hvetja stelpurnar áfram í allt sumar þó hún hafi farið á láni til Breiðabliks. Við munum fylgjast spennt með framgangi Sveindísar og erum þess fullviss að hún verður landi og þjóð til sóma bæði innan og utan knattspyrnuvallarins á næstu árum.“
Benedikta Benediktsdóttir, formaður kvennaráðs knattspyrndeildar Keflavíkur: „Við erum ótrúlega stolt af Sveindísi. Hún er frábær leikmaður og frábær stelpa í alla staði. Það er búið að vera ótrúlega gaman að fylgjast með henni taka út sinn þroska hér í Keflavík og verða að þeim leikmanni sem hún er í dag. Hún er einn allra efnilegasti leikmaður sem við höfum séð hérna á Íslandi sem sést vel á því að stórlið eins og Wolfsburg vilji fá hana til sín. Það er verður spennandi að fylgjast með henni í Þýskalandi og ekki síður með landsliðinu á næstu árum.“
Jónas Guðni Sævarsson, framkvæmdarstjóri: „Þessi vistaskipti Sveindísar til Wolfsburg eru með þeim stærri sem við höfum séð í íslenskum fótbolta frá upphafi. Wolfsburg eru ríkjandi þýskalandsmeistarar og léku í úrslitaleik meistaradeildarinnar í fyrra. Við keflvíkingar erum ótrúlega stolt af henni. Hún hefur verið með okkur frá því að hún byrjaði í fótbolta og hefur, þrátt fyrir ungan aldur spilað fjölmarga leiki í meistaraflokki. Starfið í kringum kvennaliðið hefur verið eflt alveg gríðarlega síðustu ár og það hefur verið mikil aukning iðkenda stúlkna megin samhliða því. Það er ekki síst vegna þess góða starfs sem unnið hefur verið af núverandi stjórn og okkar öfluga kvennaráði sem brennur fyrir því að búa til eins góða umgjörð og kostur er utan um stelpurnar okkar. Þá má ekki gleyma hlutverki þjálfarans Gunnars Magnúsar og Hauks, sem var aðstoðamaður hans, sem hafa byggt upp góð lið og gert leikmönnum eins og Sveindísi tækifæri til að blómstra. Keflavík er eitt af fáum liðum sem er með meistaraflokka karla- og kvenna í efstu deild og það er mikilvægt til að viðhalda áhuga og halda áfram að rækta gott fótboltafólk og manneskjur eins og hana Sveindísi.“
Sveindís Jane er í viðtali í næsta tölublaði Víkurfrétta og ítarlegra viðtal við hana verður birt í sjónvarpi Víkurfrétta og í Suðurnesjamagasíni. Í spilaranum hér að neðan má heyra stuttan úrdrátt úr viðtalinu.