Sveindís Jane er komin til baka
Keflvíkingurinn Sveindís Jane Jónsdóttir lék um síðustu helgi sinn fyrsta leik eftir meiðsli þegar hún kom inn á í leik Kristianstad og Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni.
Sveindís gekk til liðs við þýska stórliðið Wolfsburg á síðasta ári og er á lánssamningi hjá Kristianstad, hún byrjaði tímabilið mjög vel í Svíþjóð en meiddist illa í leik í þriðju umferð deildarinnar fyrir um mánuði síðan. Í fyrstu var talið að meiðsli hennar væru alvarleg en sem betur fer reyndust þau ekki eins slæm og útlit var fyrir.
Í samtali við Víkurfréttir sagðist Sveindís hafa mætt á sína fyrstu æfingu með liðinu síðasta miðvikudag og í framhaldinu hafi hún verið valin í hóp fyrir leikinn gegn Hammarby. Hammarby vann leikinn 3:1 og fékk Sveindís að leika síðasta hálftímann í fyrsta tapleik liðsins á tímabilinu. „Ég er að vona að ég verði í byrjunarliðinu í næsta leik,“ sagði Sveindís Jane jafnframt en Kristianstad, sem er í fjórða sæti sænsku úrvalsdeildarinnar, mætir toppliði FC Rosengård næstkomandi föstudag í áttundu umferð deildarinnar.