Svæðisstöð ÍSÍ og UMFÍ opnar á Suðurnesjum
Í ágúst sl tóku starfsmenn Svæðisstöðvar ÍSÍ og UMFÍ á Suðurnesjunum til starfa en stöðin er einn af átta svæðisstöðvum sem dreifðar eru um land allt.
Mennta- og barnamálaráðuneytið setti fram stefnumótun í íþróttamálum til ársins 2030 þar sem markmið voru meðal annars að efla starfsemi og skipulag íþróttahreyfingarinnar á landsvísu. ÍSÍ og UMFÍ skrifuðu svo undir samning við ráðuneytið í lok árs 2023 þar sem fjármagn var fengið til að setja á laggirnar átta svæðisstöðvar um land allt. Eitt af markmiðum svæðisstöðvanna er að styðja við íþróttahéruð landsins auk aðildarfélaga þeirra og stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi þar sem sérstök áhersla er lögð á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna af erlendum uppruna.
Íþróttastarf er eitt af grunnstoðum samfélagsins og hefur þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi jákvæð áhrif á líkamlega, félagslega og andlega heilsu einstaklinga og því mikilvægt að íþróttaiðkun sé aðgengileg öllum.
Síðastliðnar vikur hafa svæðisfulltrúar verið að kynna sig og sitt starf auk þess að kynnast einstaklingum sem starfa innan íþróttahreyfingarinnar og hjá sveitarfélögunum á Suðurnesjunum.
Tvö störf á Suðurnesjunum
Í Suðurnesjateyminu starfa saman þau Petra Ruth Rúnarsdóttir og Sigurður Friðrik Gunnarsson. Þau eru með skrifstofu á Ásbrú að Skógarbraut 945. Netföngin þeirra eru [email protected] og [email protected] og eru þeir sem eru áhugasamir um íþróttastarf hvattir til að hafa samband við svæðisfulltrúana sem aðstoða eða leiðbeina um allt er varðar íþróttastarf.