Súrt tap á lokamínútunum
Keflavík tók á móti ÍBV á HS Orkuvellinum í kvöld í Pepsi Max-deild kvenna. Gegn gangi leiksins skoraði ÍBV vafasamt sigurmark á lokamínútum leiksins auk þess sem heimakonur komu boltanum í tvígang í netið í uppbótartíma en bæði mörkin voru dæmd af.
Leikurinn fór rólega af stað án þess að liðin væru að skapa sér færi en á 17. mínútu komu Eyjakonur upp vinstri kantinn og lögðu boltann fyrir framherja sem setti hann í netið án þess að Tiffany Sornpao kæmi nokkrum vörnum við.
Keflvíkingar tóku ágætlega við sér eftir að hafa fengið mark á sig en svo féll leikurinn aftur í jafnvægi milli liðanna. Á 36. mínútu jöfnuðu heimakonur hins vegar leikinn þegar Tiffany átti langa sendingu fram völlinn þar sem sprækur framherji Keflvíkinga, Aerial Chavarin, hafði betur en varnarmenn ÍBV í kapphlaupi um boltann og skoraði fram hjá markverði Eyjakvenna. Staðan 1:1 í hálfleik.
Lið Keflavíkur mætti ákveðið til síðari hálfleiks og tóku má segja völdin á vellinum. Keflavík pressaði vel og þær voru hættulegar fram á við, sérstaklega voru þær Aerial og Dröfn Einarsdóttir sprækar og sífellt ógnandi. Þá var fyrirliðinn, Natasha Anasi, kraftmikil að vana og Celin Rumpf mjög traust í vörninni. Það er í raun ósanngjarnt að nefna til sögunnar einhverja leikmenn fram yfir aðra því í heildina var allt Keflavíkurliðið að spila fínan leik.
Þegar stutt var til leiksloka komst Aerial inn fyrir vörn ÍBV og skoraði en var dæmd rangstæð. Algerlega gegn gangi leiksins komst ÍBV í sókn á lokamínútunum og náðu að skora í annað sinn (89'), nú mjög vafasamt mark eftir aukaspyrnu þar sem leikmaður ÍBV virtist vera rangstæður. Mark var það engu að síður að mati annars ágæts dómara kvöldsins.
Keflvíkingar bættu í sóknina á lokamínútunum og var gífurleg pressa á mark ÍBV. Tvívegis skoruðu heimakonur í sömu sókninni en aðstoðardómarinn lyfti flagginu til marks um rangstöðu, aftur mjög vafasamur dómur.
Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflvíkinga, var að vonum súr eftir leikinn en stutt viðtal við hann má sjá í spilaranum hér að neðan.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og tók meðfylgjandi myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.