Sunnubrautin verður TM höllin Keflavík
Tryggingafélagið TM undirritaði á dögunum samstarfssamning við Körfuknattleiksdeild Keflavíkur og samkvæmt samningi mun heimavöllur liðsins að Sunnubraut 34 í Keflavík hér eftir bera nafnið TM-Höllin en heimavöllurinn mun bera nafnið næstu árin.
TM er stolt af því að geta stutt við bakið á góðu starfi hjá körfuknattleiksdeild Keflavíkur og sett nafn sitt við heimavöll liðsins, segir í tilkynningu frá tryggingafélaginu.
Nú er undirbúningsmótum í körfuboltanum lokið en karlalið Keflavíkur stóð uppi sem sigurvegari í Lengjubikar KKÍ eftir sigur á KR og þá sigruðu Keflavíkurstúlkur leikinn um „meistara meistaranna“ gegn Val. Domino's deild karla og kvenna eru farnar af stað og hafa stúlkurnar þegar leikið tvo heimaleiki í ný merktri TM-Höllinni. Fyrsti heimaleikur karlaliðs Keflavíkur er hins vegar föstudaginn 18. október gegn KFÍ.