Sundmenn ÍRB á faraldsfæti
Sundmenn innan raða ÍRB hafa nóg að gera næstu dagana og vikurnar.
Eins og fram hefur komið á vef VF eru Ólympíufararnir, Erla Dögg og Árni Már,farin til Singapore í lokaundirbúningur fyrir leikana í Peking.
Á mánudag fara Soffía Klemenzdóttir, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson og Sindri Þór Jakobsson til Belgrad, Serbíu á Evrópumeistaramót unglinga. Sama dag fara 42 sundmenn úr tveimur elstu hópum ÍRB ásamt þjálfurum og fararstjórum í 12 daga æfingabúðir til Calella, rétt norðan við Barcelona.
Lilja Ingimarsdóttir og Gunnar Örn Arnarson fara fimmtudaginn 31.júlí til Tampere í Finnlandi til að keppa á Norðurlandameistaramót Æskunnar.
Unga fólkið eru verðugir fulltrúar Reykjanesbæjar hvert sem það fer og verður gaman að fylgjast með árangri þeirra á erlendum vettvangi.
Sérstök eftirvænting er í bæjarfélaginu vegna þátttöku Erlu Daggar Haraldsdóttur á Ólympíuleikunum en hún er búin að æfa sund í 10 ár, fyrst með UMFN undir stjórn Maríu í litlu sundlauginni í Njarðvík en síðustu 8 árin undir handleiðslu Steindórs Gunnarssonar hjá ÍRB.