Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sundlaugin í Sandgerði er best
Fimmtudagur 28. febrúar 2019 kl. 07:00

Sundlaugin í Sandgerði er best

- segir Katla María Þórðardóttir sem var valinn Íþróttamaður Suðurnesjabæjar 2018

„Það kom mér mjög mikið á óvart að vera valinn Íþróttamaður Suðurnesjabæjar þar sem margir frábærir íþróttamenn voru tilnefndir en tilfinningin var góð,“ segir Katla María Þórðardóttir, knattspyrnukona úr Sandgerði. Hún hefur verið einn af burðarásum kvennaliðs Keflavíkur í knattspyrnu sem leikur í Pepsí-deildinni í sumar.

„Ég byrjaði við fjögurra eða fimm ára aldur í boltaskólanum og hef verið að spila síðan. Mér finnst fótboltinn alltaf mjög skemmtilegur en hann hefur verið sérstaklega spennandi síðustu tvö ár þar sem við í Keflavíkurliðinu höfum verið að vaxa mikið. Við unnum okkur upp í Pepsí-deild síðasta sumar þannig að það eru mjög krefjandi en spennandi tímar framundan,“ segir knattspyrnukonan unga.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Katla María lék alla leiki Keflavíkurliðsins síðasta sumar en hún hefur leikið 59 leiki með Keflavík og skorað í þeim ellefu mörk og það þrátt fyrir að vera varnarmaður. Hún var einnig lykilmaður í U17 landsliðinu og lék alla leiki þess á árinu, fimm talsins og var m.a. fyrirliði í einum þeirra. Þá var Katla valin í U19 landslið Íslands á árinu og lék með því átta leiki á síðasta ári.

Hver er helsta fyrirmynd þín í knattspyrnunni?
„Ég myndi segja að helsta fyrirmynd mín sé Sara Björk Gunnarsdóttir. Stefna mín er að fara alla leið eins og hún, að spila í sama styrkleikaflokki og hún í framtíðinni.“

Hvað með nám og framtíðarpælingar varðandi starf?
„Ég er á fjölgreinabraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hef ekki alveg ákveðið mig hvert ég vil stefna í námi.“

Uppáhaldsmatur?
Grillað lambafillé.

Uppáhaldsdrykkur?

Nocco.

Eftirminnilegast úr fótboltanum?
„Ég verð að segja að eftirminnilegasta minningin úr fótboltanum sé þegar við tryggðum okkur sæti í deild þeirra bestu síðasta sumar.“

Hvað er best við Suðurnesjabæ?
„Það er margt mjög fínt við Suðurnesjabæ en mér finnst sundlaugin í Sandgerði best þar sem ég fer oft í pottinn eftir æfingar.“

Helstu afrek í fótboltanum?
„Helsta afrek mitt er líklega að vera hluti af liði Keflavíkur þegar við komumst upp í deild þeirra bestu síðastliðið sumar. Einnig hefur verið gaman að fá að taka þátt í verkefnum með unglingalandsliðum Íslands.“

Katla á fullu með Keflavík í leik síðasta sumar.


Katla með félögum sínum þeim Sveindísi og Anitu úr Keflavíkurliðinu.