Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sundið á góðu skriði í Reykjanesbæ
Sunnudagur 8. desember 2013 kl. 10:39

Sundið á góðu skriði í Reykjanesbæ

- Gríðarlegar framfarir hjá liði ÍRB

Lið ÍRB varð bikarmeistari í kvennaflokki og hafnaði í öðru sæti í  karlaflokki í bikarkeppni Sundsambands Íslands sem fram fór í Laugardalslaug um nýliðna helgi. Liðið hefur náð frábærum árangri í ár og er á stöðugri uppleið.

Anthony Kattan, þjálfari ÍRB, hefur náð frábærum árangri með liðinu síðan hann tók við árið 2010. Hann segir samkeppnina vera mikla í sundinu hér í bæ. Hér sé eitt öflugasta og stærsta sundfélag landsins en liðið var það fjölmennasta á stórmótum þessa árs. Anthony telur að til þess að Íslendingar geti tekið næsta skref í sundinu þurfi meiri samkeppni. „Sundfólk þarf öfluga samkeppni til þess að vaxa og dafna. Hér er ekki eins erfitt að vinna til verðlauna og komast í landsliðsklassa og víðs vegar í öðrum löndum,“ segir þjálfarinn en hann telur að vinna þurfi betur í því að fá ungt og efnilegt íþróttafólk til þess að stunda sund til þess að auka samkeppni.

Aðspurður um getu og hæfileika sundfólks okkar hér í Reykjanesbæ og á Íslandi almennt þá segir Anthony að enn sé nokkuð í land með það að sundfólk okkar sé sterkt á aðþjóðamælikvarða. „Okkar sundfólk í ÍRB er þó mjög sterkt á íslenskan mælikvarða og í stöðugri framför.“ ÍRB reynir eftir fremsta megni að keppa erlendis meðal þeirra bestu og nú í febrúar n.k. mun liðið halda á sterkt mót í Lúxemborg þar sem þekktir heimsmethafar mæta til leiks. Anthony segir ómögulegt að segja til um hvort ÍRB eigi tilvonandi Ólympíufara innan sinna raða. „Sífellt er verið að þyngja lágmörkin sem þarf til þess að komast á leikana. Svo er svo margt sem spilar inn í varðandi þroska, áhuga og hugarfar þegar á móti blæs hjá sundmönnum.“

Árið 2013 hefur verið það langbesta hjá ÍRB síðan Anthony kom til starfa en liðið hefur tekið stórstígum framförum á árinu. Þegar Nýsjálendingurinn kom til landsins voru fimm stúlkur og tveir drengir með yfir 600 FINA stig. Enginn sundmaður sem var að æfa þá var yfir 700 FINA stig. Þessa stundina eru 11 stúlkur og fjórir drengir með yfir 600 FINA stig. Þegar Anthony kom til landsins var enginn sundmaður sem var að synda þá hjá ÍRB með yfir 700 stig en síðan þá hafa sex sundmenn náð þessum viðmiðum og er Kristófer Sigurðsson hæstur núverandi sundmanna með 743 stig. ÍRB hefur átt alls sex sundmenn sem hafa náð yfir núverandi 750 FINA stigum en þau eru: Erla Dögg Haraldsóttir, Örn Arnarson, Árni Már Árnarson, Jón Oddur Sigurðsson, Sindri Þór Jakobsson og Eðvarð Þór Eðvarðsson. Heimsmet gefur 1000 FINA stig á stigvaxandi kúrfu. Því nær sem þú ert 1000 stigum því meira hækka stigin við hverja sekúndu.

Liðsmenn ÍRB eiga 82 Íslandsmet í öllum aldursflokkum
Til marks um framfarir hjá ÍRB liðinu unga eru 82 Íslandsmet í aldursflokkum bæði einstaklingsmet og boðsundsmet í eigu liðsins en flest þeirra hafa verið slegin á undanförnum árum. Margir sundmenn eru svo ansi nálægt metum sem afburðasundmenn settu á sínum tíma. Eins og áður segir þarf margt til þess að ná árangri, það má segja um flestar íþróttir. Sund er þó íþrótt þar sem ástundun og agi spila líklega stærri rullu en í flestum öðrum greinum. „Sund er erfið íþrótt og þeir sem hafa einbeitinguna, seigluna og stunda íþróttina lengi og vel, ná að verða bestir á endanum.“ Anthony nefnir hinn 18 ára Kristófer Sigurðsson sem gott dæmi en hann hefur hægt og bítandi verið að koma sterkur inn hjá ÍRB og er að toppa núna og vann t.a.m Íslandsmeistaratitil á árinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Meðalaldur liðsins á ÍM25 og Bikar var 14,5 ár
Stuðningur frá fjölskyldunni er einnig afar mikilvægur og segir Anthony að sá stuðningur hafi aukist töluvert síðan hann tók við liði ÍRB. Þegar Anthony hóf störf voru um 18 sundmenn í hans hópi. Nú eru þeir um 30. Á morgunæfingum voru stundum fimm eða færri sem mættu en nú eru oftast um 20 krakkar sem mæta. Það er ekki orðum aukið að kalla sundfólkið krakka, en liðið er afar ungt þar sem meðalaldur liðsins sem fór á ÍM25 og Bikar var 14,5 ár. Anthony segir erfitt fyrir sundmenn sem eru komnir á háskólaaldur að halda áfram að æfa af sama kappi. Sérstaklega ef farið er í háskóla í Reykjavík og æfingar stundaðar með ÍRB í Reykjanesbæ. Því komi það oft til að margir hætti á þeim aldri þegar háskólanám hefst eða færi sig í önnur lið. Í auknum mæli eru sundmenn þó að fara erlendis til náms og æfinga, þá einkum til Bandaríkjanna. Sundmenn eins og Erla Dögg, Árni Már, Davíð Hildiberg og Jóna Helena hafa öll farið til Bandaríkjanna eftir feril sinn hjá ÍRB. „Elstu sundmenn okkar fá reglulega tilboð um að ganga til liðs við háskóla í Bandaríkjunum. Þar eru miklir hagsmunir í húfi enda boðið upp á frítt nám í dýrum háskólum. Af hverju ættu þau ekki að grípa tækifærið? Þannig að í nánustu framtíð sé ég fram á það að ÍRB verði fyrst og fremst byggt upp á ungum og efnilegum sundmönnum upp að 19 ára aldri. Það er þó í góðu lagi. Við vitum hver við erum, við getum alið upp frábæra sundmenn en samt sem áður stefnt að því að ná árangri með þeim unga hóp sem við höfum.“

Metfjöldi verðlauna í ár
Sem dæmi um framfarir liðsins má nefna að í ár vann lið ÍRB til 41 verðlauna á Íslandsmeistaramóti í 25 metra laug. Til samanburðar unnust 12 verðlaun árið 2010 16 árið 2011og 14 í fyrra, sem gera samtals 42. Það er virkilega stórt stökk sérstaklega ef litið er til þess að áður voru iðkendur ÍRB sem sóttu skóla í Bandaríkjunum reglulega á meðal keppenda. Núna eru allir sundmenn búsettir hér á svæðinu. ÍRB sigraði AMÍ í þriðja sinn í röð í ár en þar keppir sundfólk sem er yngra en 15 ára. Liðið sankaði að sér fleiri verðlaunum en liðin í öðru og þriðja sæti samanlagt, alls 142 verðlaunapeningum. ÍRB vann einnig flest verðlaun, eða 64, á Unglingameistaramóti Íslands sem er keppni unglinga 15-20 ára. ÍRB á um 50% allra keppenda í yngri landsliðum Íslands en framfarirnar koma bersýnilega í ljós þegar til þess er litið. Í félaginu eru 16 sundmenn sem á einhverjum tímapunkti hafa keppt fyrir Íslands hönd á síðustu tveimur árum. Árið 2011-2012 voru aðeins sex keppendur frá ÍRB í landsliðsverkefnum, þar af þrír sem búsettir voru í Bandaríkjunum. Þannig að óhætt er að fullyrða að framfarirnar eru gríðarlega miklar.

[email protected]