Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 31. janúar 2001 kl. 08:41

Sundfólk úr Reykjanesbæ stóð sig vel í Luxemborg

Sundfólk úr Reykjanesbæ stóð sig sérlega vel á sterku Alþjóðlegu sundmóti í Luxemborg dagana 26. - 28. janúar. Jón Oddur Sigurðsson Njarðvík, setti Íslandsmet í 50m bringusundi piltaflokki og tryggði sér þar með þátttöku í Evrópumeistaramóti unglinga sem fram fer á Möltu nú í sumar.

Keppt var í Ólympíulauginni í Luxemborg sem er 50 metra innilaug og glæsilegt mannvirki. Úr Reykjanesbæ fóru 13 sundmenn, níu úr Keflavík og fjórir úr Njarðvík, ásamt tveimur þjálfurum og fararstjóra. Íslenski hópurinn sem fór á þetta mót voru alls 31 sundmenn úr fimm félögum. Njarðvík, Keflavík, Breiðablik, Vestra og ÍA.
Að sögn Steindórs Gunnarsson, þjálfara Njarðvíkur, var mótið talsvert sterkt. Þarna voru sundmenn sem skipa landslið eða unglingalandslið Þýskalands, Úkraínu, Spánar, Portúgals, Luxemborgar, Danmerkur og Bretlands, ásamt öðrum þjóðum. Af þeim níu verðlaunum sem íslenski hópurinn vann til þá voru það sundmenn úr Reykjanesbæ sem unnu til átta af þeim. „Keppnisfyrirkomulagið var þannig að á morgnana þegar keppt var í undanrásum, þá var jafnframt synt til verðlauna í unglingaflokki. Yfir heildina þá var sundfólkið okkar yfirleitt að gera góða hluti, náði í verðlaun í unglingaflokkunum ásamt því að komast í átta eða sextán manna úrslit í opnum flokki“, segir Steindór og er auðheyrilega ánægður með ferðina.
Birkir Már Jónsson úr Keflavík vann bronsverðlaun í 1500 metra skriðsundi í drengjaflokki. Þóra Björg Sigurþórsdóttir úr Keflavík vann tvenn bronsverðlaun í 50m flugsundi og 400m fjórsundi í telpnaflokki. Erla Dögg Haraldsdóttir úr Njarðvík vann þrenn silfurverðlaun í 50, 100 og 200m bringusundi í telpnaflokki. Jón Oddur Sigurðsson varð þriðji í piltaflokki í 50m bringusundi ásamt því að verða níundi í úrslitum í opnum flokki. Um leið setti hann nýtt og glæsilegt íslandsmet í piltaflokki. Þessi árangur hans tryggði honum þáttökurétt á Evrópumeistaramóti unglinga á Möltu nú í sumar. Einnig náði hann þriðja sætinu í 100m bringusundi í piltaflokki og komst í úrslit í opnum flokki þar sem hann hafnaði í 11. sæti.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024