Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sundfólk ÍRB stendur sig vel
Sveit ÍRB í blönduðu fjórsundsboðsundi, sem var síðasta grein mótsins, lenti í þriðja sæti. F.v. Kári Snær Halldórsson, Eva Margrét Falsdóttir, Sólveig María Baldursdóttir og Fannar Snævar Hauksson.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 25. mars 2021 kl. 09:19

Sundfólk ÍRB stendur sig vel

Ásvallamót SH fór fram í Hafnarfirði um helgina. Annað mótið á árinu sem hægt hefur verið að halda. Sóttvarnir, hólfaskiptingar og áhorfendaleysi setti sinn svip á mótið en sundfólk ÍRB var í góðum gír á mótinu.

Katla María Brynjarsdóttir náði lágmörkum á Norðurlandamót Æskunnar 

Katla María stóð sig afar vel í 800m skriðsundi þegar hún gerði sér lítið fyrir og náði lágmörkum á Norðurlandamót æskunnar sem fram fer í Litháen í júlí. Í þessu sundi bætti hún sinn fyrri tíma um rúmlega sex sekúndur og vann greinina með glæsibrag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sunneva Bergmann Ásbjörnsdóttir náði lágmörkum inn í Framtíðarhóp Sundsambandsins 

Sunneva Bergmann var líka í stuði og bætti sína fyrri tíma í öllum sínum sundum helgarinnar, þar sem hún náði inn í Framtíðarhóp SSÍ í 200 metra, 400 metra og 1.500 metra skriðsundi.

Eva Margrét Falsdóttir þriðja stigahæsta sundkona mótsins

Eva Margrét var að gera afar góða hluti á mótinu en hún hafnaði í þriðja sæti yfir stigahæstu sundkonur mótsins.  

Margir sundmenn voru að standa sig vel á mótinu og mikið um bætingar. Fannar Snævar Hauksson sló tvö innanfélagsmet og markverðir tímar skutust upp hjá nokkrum sundmönnum ásamt því að nokkrir sundmenn voru að ná lágmörkum fyrir ÍM 50. Núna eru tæplega þrjár vikur í Íslandsmeistaramótið í 50 metra laug (ÍM 50) og sundfólkið greinilega á leið í sitt besta form.