Sumarið er tíminn
	Þá er loksins komið að því að boltinn fari að rúlla á ný eftir langan vetur og við Keflvíkingar erum tilbúnir í slaginn.
	
	Keflavíkurliðið verður aðeins breytt frá síðasta ári eins og gjarnan er.  Nokkrir sterkir leikmenn eru farnir frá okkur og þökkum við þeim fyrir þeirra framlag til Keflavíkur.
	
	Við höfum á móti fengið sterka leikmenn til liðs við okkur og það verður gaman að fylgjast með þeim í sumar. Við Keflvíkingar höldum okkur við þá línu að treysta á heimamenn eins og við höfum gert undanfarin ár.  Ég vil þakka þeim fyrir þeirra frábæra framlag en þeir hafa staðið með sínu félagi í gegnum súrt og sætt síðustu árin. Slíkt ber að virða og þakka því það er ekki sjálfgefið að eiga leikmenn sem elska félagið sitt.
	
	Keflavíkurliðið er tilbúið í stóru átökin enda hefur liðið æft gríðarlega vel í vetur. Farin var æfingaferð til Spánar í byrjun apríl en slíkt gerir mikið fyrir leikmenn og þjálfara .
	
	Stuðningsmenn okkar eru öflugir og mjög mikilvægir fyrir liðið okkar og þá sem að því standa.  Það er aðdáunarvert að sjá hve stór hópur stuðningsmanna fylgir liðinu í alla leiki og ég hvet ykkur til að láta sjá ykkur á sem flestum leikjum okkar í sumar.
	
	Knattspyrnudeildin mun áfram verða með opið hús í félagsheimilinu fyrir heimaleiki.  Þar verður hægt að kíkja í kaffi og fá sér grillaða hamborgara en auk þess verða væntanlega einhverjar óvæntar uppákomur.
	
	Um leið og ég óska ykkur öllum góðs knattspyrnusumars þá hlökkum við til að sjá ykkur á vellinum.
	
	Áfram Keflavík,
	Þorsteinn Magnússon,
	formaður Knattspyrnudeildar
	

 
	
			

 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				