Suðurnesjastrákar ná árangri með landsliðinu
U19 ára lið Íslands í milliriðið EM
Það er ekki einungis A-landslið karla í fótbolta sem er að gera góða hluti um þessar mundir. Yngri landslið karla eru einnig á góðu skriði en þeirra á meðal er U19 ára liðið. Þar eru þrír Suðurnesjamenn innanborðs sem allir komu við sögu í 1-0 sigri gegn N-Írum í gær.
Grindvíkingurinn Daníel Leó Grétarsson lék allan leikinn en Keflvíkingarnir Elías Már Ómarsson og Samúel Kári Friðjónsson komu inn í leikinn sem varamenn í seinni hálfleik. Samúel er á mála hjá enska liðinu Reading. Bæði Elías og Daníel vöktu nokkra athygli í sumar fyrir góðan leik með liðum sínum. Daníel var lykilmaður hjá Grindvíkingum í 1. deild, á meðan Elías átti flotta spretti í Pepsi-deildinni en hann átti m.a. mark ársins.
Liðið hefur tryggt sér sæti í milliriðli fyrir lokakeppni EM en liðið hafnaði í 2. sæti riðils síns á eftir Belgum og fyrir ofan Frakka og N-Íra.