Suðurnesjaslagur í TM-höllinni í dag
Mikilvægur leikur fyrir Grindavíkurstúlkur sem berjast fyrir sæti í úrslitakeppninni
Það verður boðið uppá Suðurnesjaslag af bestu gerð í TM höllinni í dag þegar Keflavík tekur á móti Grindavík í næst síðustu umferð Domino´s deildar kvenna.
Liðin léku eins og kunnugt er til úrslita um bikarmeistaratitilinn í febrúar þar sem að Grindavíkurstúlkur komu, sáu og sigruðu nokkuð örugglega. Keflvíkingar vilja örugglega gleyma þeim leik sem fyrst þar sem að þær voru yfirspilaðar á flestum sviðum körfuboltans.
Fyrir leik hefur Keflavík ekki að neinu að keppa þar sem að liðið siglir lygnan sjó í 2. sæti deildarinnar og getur ekki hreyfst um stað. Grindvíkingar geta aftur á móti bæði skriðið upp í 3. sætið og dottið niður í 5. sæti áður en úrslitakeppnin hefst og þar með misst af frekari þátttöku í Íslandsmótinu.
Víkurfréttir settu sig í samband við tvo af burðarásum liðanna, þær Pálínu Maríu Gunnlaugsdóttur, (Grindavík) og Söru Rún Hinriksdóttur (Keflavík) og spurðust fyrir um leik morgundagsins.
Sara Rún Hinriksdóttir
Þið hafið misst af deildarmeistaratitlinum en eruð öruggar með 2. sætið í deildinni. Verður erfitt að gíra sig upp fyrir svona leik?
Nei alls ekki, þetta er ný keppni. Það er frábært að vera komnar í þessa stöðu. Núna höfum við tíma til þess að undirbúa okkur fyrir úrslitakepnnina
Þið hafið harma að hefna síðan í bikarúrslitunum. Situr sá leikur í ykkur?
Nei, hann situr kannski ekki í okkur. Auðvitað var sárt að tapa þeim leik og því mætum grimmar til leiks á morgunn.
Hverju þurfið þið að breyta frá þeim leik til að stöðva Grindavík á morgunn?
Fyrst og fremst að mæta tilbúnar til leiks , hafa hausin í lagi og spila sem lið.
Pálína María Gunnlaugsdóttir
Næst síðasti leikur deildarkeppninnar og þið viljið væntanlega klára að tryggja ykkur inn í úrslitakeppnina með sigri til að forðast úrslitaleik við Val í síðustu umferð?
Já, við förum náttúrulega í alla leiki með það hugarfar að vinna, sem betur fer er úrslitakeppnissætið enn í okkar höndum og þurfum við einungis að treysta a okkur sjálfar til þess að komast í þangað. Við mætum tilbúnar í leikinn a morgun og markmiðið er að sjálfsögðu sigur.
Hvernig stoppið þið Keflvíkinga á morgunn?
Við þurfum að spila saman, það hefur verið þannig i vetur að þegar við gerum það þá vinnum við. Við erum með mjög gott lið og þegar við spilum sem ein heild þa erum við ósigrandi.
Þið eruð að koma af slæmu tapi gegn Snæfell, hverju ætlið þið að breyta í ykkar leik frá þeim leik?
Við þurfum að mæta tilbúnar, við gerðum það ekki a móti Snæfelli í síðustu umferð enda tapaðist leikurinn í fyrsta leikhluta.
Ég held að allir leikmenn í deildinni sem eru yfir 25 ára séu sammála mer að mótið er heldur langt og er skrokkurinn orðinn þreyttur, en við þurfum bara að mæta tilbunar með jákvætt og sterkt hugarfar þá verður þetta hörkugóður leikur.
Leikurinn hefst kl. 16:30 í TM- höllinni.