Suðurnesjasigrar á línuna
Öll Suðurnesjaliðin fóru með sigur af hólmi í gærkvöld úr leikjum sínum í Lengjubikarnum í körfubolta karla.
Keflavík sigraði Stjörnuna á heimavelli með 94 stigum gegn 89 þar sem að Darrel K. Lewis nokkur var mættur í hús og skellti 21 stigi. Njarðvíkingar sigruðu Blika nokkuð auðveldlega 94:58 þar sem hæst bar að Friðrik Stefánsson var sendur í sturtu. Og svo voru það Grindvíkingar sem skelltu Haukum með 73 stigum gegn 66.
Öll úrvalsdeildarliðin nema Njarðvíkingar skörtuðu nýjum erlendum leikmönnum í gær. Sem fyrr segir var Darrell Lewis mættur í Keflavíkina og þrátt fyrir að vera komin á efri árin þá leit kappinn nokkuð vel út en á líkast til eitthvað í land með formið. Kevin Glitner var svo í Keflavíkurbúning, mikil skytta og nokkuð sprækur leikmaður sem verður fróðlegt að fylgjast með. Hann setti niður 24 stig.
Hjá meisturum Grindavík voru mættir Aaron Broussard og Sammy Zeglinski. Aaron skilaði stórleik í 32 stigum og 14 fráköstum á meðan Zeglinski hafði hægar um sig með 11 stig og 5 stoðsendingar.
frétt: [email protected]