Suðurnesjamótið í Höllinni
Fyrstu tveir leikir Suðurnesjamótsins í knattspyrnu fóru fram í Reykjneshöllinni í byrjun vikunnar. Lið FH og Njarðvíkur mættust á sunnudaginn og voru úrslit leiksins 5-1, FH í vil. Njarðvíkingar sátu því eftir með sárt ennið en þeir eiga vafalaust eftir að sýna hvað í þeim býr í næstu leikjum. Grétar Gíslason skoraði mark Njarðvíkinga.Keflavík keppti við lið Golfklúbbs Grindavíkur, GG, á mánudaginn. Keflvíkingum tókst að koma knettinum fjórum sinnum í netið en liðsmenn GG höfðu ekki sömu sögu að segja. Leikar fóru því 4-0, Keflvíkingum í vil. Þórarinn Kristjánsson skoraði 2 mörk, Guðmundur Steinarsson eitt og Jakob Jónharðsson eitt fyrir Keflavík.Í A-riðil Suðurnesjamótsins drógust lið FH, GG, Keflavíkur og Njarðvíkur og í B-riðli eru lið Grindavíkur, Reynis Sandgerði, Víðis og Þróttar í Vogum. Búast má við æsispennandi keppni og harðri baráttu þegar þessi lið mætast í Reykjaneshöllinni á næstu vikum. Næsti leikur Suðurnesjamótsins verður mánudaginn 28. febrúar, en þá munu Víðir og Grindavík leiða saman hesta sína.