Suðurnesjamenn í eldlínum Stjörnuleikjanna
Stjörnuleikir KKÍ í körfuknattleik fóru fram í DHL – höllinni í dag. Þetta var í 19. sinn sem KKÍ heldur Stjörnuleiki en sá fyrsti fór fram í Valsheimilinu árið 1988.
Erlendu úrvalsliðin sigruðu báða leikina í dag, konurnar sigruðu íslenska liðið 98 – 77 en í karlaleiknum sigruðu erlendu strákarnir þá íslensku 128 – 109. Meagan Mahoney, leikmaður Breiðabliks og A.J. Moye, leikmaður Keflavíkur, voru valin bestu leikmenn leikjanna. Meagan gerði 22 stig, 9 fráköst, 6 stoðsendingar og stal 4 boltum. A.J. Moye gerði 21 stig og gaf 8 stoðsendingar.
Valsarinn Richmond Pittman sigraði í troðslukeppninni með sannkölluðum skrímslatroðslum en hann kom inn í keppnina eftir að Omari Westley, leikmaður KR, dró sig úr keppni. Þrír Íslendingar tóku þátt í keppninni, þeir Egill Jónasson, Njarðvík, Ingvaldur Magni Hafsteinsson, Snæfell og Matthías Ásgeirsson frá Val. Íslensku strákarnir gáfu þeim erlendu ekkert eftir og sýndu nokkrar magnaðar troðslur.
Lakiste Barkus, Keflavík, og Jeb Ivey, Njarðvík, sigruðu í þriggja stiga keppnunum og lagði Jeb stórskyttuna Pál Axel Vilbergsson úr Grindavík að velli.
Leikur KKÍ gegn styrktu liði íþróttafréttamanna var jafn og spennandi en lyktaði þó með „öruggum“ sigri KKÍ 18-16. Björn Leósson (KKÍ) og Ólafur Rafnsson (lék í liði íþróttafréttamanna) voru valdir menn leiksins. Víkurfréttir áttu sinn fulltrúa í leiknum sem gerði 3 stig.
VF-myndir/JBÓ
A.J. Moye treður í troðslukeppninni
Jeb Ivey með sigurlaunin úr 3ja stiga keppninni
Barkus sigraði í 3ja stiga keppni kvenna
Kunnugleg staða hjá Páli Axeli en þetta skot setti hann beint í andlitið á félaga sínum Jeremiah Johnson og lét hann um leið nokkur vel valin orð falla í eyru félaga síns..........svona rétt aðeins til að stríða honum.