Suðurnesjamenn gera það gott í Qatar
Karlasveit Íslands setti nýtt landssveitarmet í skriðsundi
Karlasveit Íslands í sundi setti í morgun nýtt landssveitarmet í 4x100m. skriðsundi á heimsmeistaramótinu í sundi í 25 m laug í Doha í Katar. Sveitin synti á 3.22,48 mínútum og hafnaði í 16. sæti.
Sveitin í morgun var skipuð tveimur Suðurnesjamönnum, þeim Kristófer Sigurðssyni og Davíð Hildiberg Aðalsteinssyni, ásamt Kristni Þórarinssyni, Kolbeini Hrafnkelssyni.
Kristófer Sigurðsson frá ÍRB kom í mark í 200 m skriðsundi á 1.50,04 mínútum og hafnaði í 53. sæti af 100 sundmönnum.
Keflvíkingurinn Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, sem búsettur er í Bandaríkjunum, varð svo í 39. sæti af 89 keppendum í 100 m baksundi á 54,04 sekúndum. Kristinn Þórarinsson kom 45. í mark í sömu grein á 54,68 sekúndum.