Suðurnesjamenn á Heimsmeistaramótinu í CrossFit
Í gær hélt hópur Íslendinga til Los Angeles þar sem fram fer Heimsmeistaramótið í CrossFit. Í liðinu Team Thor eru tveir meðlimir frá Reykjanesbæ, parið Sigurlaug Rúna Guðmundsdóttir og Daníel Þórðarson en Daníel er þjálfari liðsins sem og varamaður. Víkurfréttir heyrðu í Sigurlaugu áður en hún hélt til Bandaríkjanna en hún segir undirbúninginn hafa verið langan og strangan. „Undirbúningurinn hófst í raun í september í fyrra og hefur álagið því verið mikið, bæði líkamlega og andlega. Maður þarf að mæta á hverja æfingu einbeittur og tilbúinn að takast á við æfingu dagsins. Hvíldin skiptir miklu máli þar sem líkaminn verður að fá að endurnýja niðurbrot á líkamanum sem gerist við mikið æfingaálag. Einnig þarf að passa vel upp á mataræðið og að borða nóg af hollum mat.“ Sigurlaug segir þó að það mikilvægasta sé að trúa á sjálfa sig og gefast aldrei upp í þessu langa æfingaferli.
Sigurlaug tók þátt í Evrópumótinu í CrossFit sem haldið var í Danmörku í maí ásamt liði sínu Team Thor. Liðið var talið mjög sigurstranglegt á mótinu ásamt liði frá Svíþjóð, Team Nordic. Á lokadeginum þegar aðeins ein æfing var eftir voru liðin jöfn að stigum á toppnum. Keppnin endaði þó þannig að Team Nordic vann og lenti íslenska liðið í 2. sæti. Það sæti tryggði þeim sæti á Heimsmeistaramótinu sem hefst í næstu viku.
Til þess að komast á Evrópumótið þurfti Sigurlaug að vinna sér inn þátttökuréttindi en hún þurfti að vera meðal 45 efstu konum í Evrópu í undankeppni sem stóð yfir í fimm vikur. Þetta fór þannig fram að á hverju miðvikudagskvöldi kom ný æfing sem keppandi þurfti að framkvæma á löglegum keppnisstað með löglegan dómara. Keppandi hafði tíma til sunnudags til að framkvæma æfinguna. „Í miðri undankeppni varð ég fyrir því óhappi að rífa brjóstvöðva og setti það strik í reikninginn en þrátt fyrir það lenti ég í 28. sæti. Í stað þess að keppa í einstaklingskeppninni ákvað ég að keppa með liðinu mínu Team Thor.“
Hægt er að fylgjast með gengi liðsins á heimasíðu CrossFit leikanna og á heimasíðu Team Thor liðsins.
Myndir: Sigurlaug að keppa á Evrópumótinu í Danmörku í maí.