Suðurnesjaliðin vinna sína leiki
Grindavík, Keflavík og Njarðvík unnu öll sína leiki í Intersport-deildinni í körfuknattleik í gærkvöldi.
Keflvíkingar fengu Breiðablik í heimsókn og sigruðu nokkuð létt 106-85. Heimamenn höfðu ágætis forskot í hálfleik, 64-41, en í seinni hálfleik gekk ekki eins vel. Breiðablik minnkaði muninn jafnt og þétt þar til undir lok leiksins þegar Keflvíkingar hrukku loks í gang og tryggðu öruggan sigur.
Atkvæðamestir í liði Keflavíkur voru Derrick Allen, sem skoraði 25 stig og tók 11 fráköst, og Nick Bradford, sem skoraði 17 stig, tók 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Mirko Virijevic bar af í liði Blika með 26 stig.
Falur Harðarson var ekki sáttur við seinni hálfleikinn hjá sínum mönnum og þakkaði góðri frammistöðu í byrjun fyrir að ekki fór illa fyrir þeim. Hann var þó ánægður með að ná tveimur stigum úr leiknum. „Fyrri hálfleikurinn var góður hjá okkur en við náðum ekki að spila okkar leik í seinni hálfleik“, sagði hann, og víst er að frammistaða eins og Keflavík sýndi á köflum í kvöld mun ekki duga til þegar þeir mæta Njarðvíkingum næstkomandi mánudagskvöld!
Grindvíkingar tóku á móti KFÍ frá Ísafirði í kvöld og sigruðu 102-95. Grindvíkingar voru yfir allan leikinn og leiddu í hálfleik 56-36. Í seinni hálfleik dalaði leikur heimamanna og Ísfirðingar komust aftur inn í leikinn og náðu að minnka muninn niður í þrjú stig en þá tóku Grindvíkingar við sér og héldu forystunni til enda.
Darrel Lewis skoraði 32 stig fyrir Grindavík og Páll Axel Vilbergsson skoraði 30. Í liði gestanna átti Adam Spanich stórleik og skoraði 47 stig og tók 11 fráköst, má þó vekja athygli á því að hann átti ekki eina einustu stoðsendingu.
„Það var bara ekki sami neistinn og krafturinn í okkur í seinni hálfleik“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindavíkur, og fannst sem sýnir menn hefði ekki sýnt af sér nógu mikla hörku og hleypt KFÍ af óþörfu inn í leikinn. En sigur hafðist að lokum og Grindavík situr á toppi deildarinnar ósigrað að loknum þremur umferðum.
Njarðvík gerði góða ferð til Þorlákshafnar þar sem þeir lögðu Þór að velli 90-97. Heimamenn voru yfir í hálfleik 53-40 en Njarðvíkingar svöruðu af krafti í þeim seinni.
Friðrik Ragnarsson var sáttur við að sækja sigur í greipar Þórsara. „Þetta var hörkuleikur og það er engin tilviljun að þeir unnu fyrstu tvo leikina í deildinni því þeir eru með mjög gott lið.“
Njarðvíkingar keyrðu hart að körfunni í seinni hálfleik og sóttu mikið af villum á heimamenn. Í lok leiksins höfðu Njarðvíkingar skorað 25 stig af vítalínunni og fjórir Þórsarar höfðu fengið fimm villur.
Ánægjulegt er að sjá að Brenton virðist vera að ná sér aftur á strik en Brandon Woudstra var hvíldur í þessum leik til þess að hann verði búinn að ná sér af smávægilegum meiðslum þegar kemur að Keflavíkurleiknum.
Stigahæstir Njarðvíkur voru Páll Kristinsson sem skoraði 24 stig og tók 16 fráköst, og Guðmundur Jónsson og Brenton Birmingham sem skoruðu 22 stig hvor auk þess sem Brenton gaf 11 stoðsendingar. William Dreher var stigahæstur Þórsara og skoraði 31 stig.
Njarðvík er með 4 stig í Intersport-deildinni eftir tvo leiki eins og Keflavík og má lofa því að ekkert verði gefið eftir í leik liðanna á mánudaginn.