Suðurnesjaliðin töpuðu bæði
Grindvíkingar töpuðu fyrir Fjölni á heimavelli og Keflvíkingar bættu við enn einu tapinu í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í þriðju síðustu umferð mótsins í gær.
Keflvíkingar náðu forystu 0-1 í Frostaskjóli þegar Frans Elvarsson kom þeim yfir en þeir röndóttu svöruðu því strax með marki mínútu síðar og bættu svo við tveimur mörkum í síðari hálfleik. Yfirburði KR voru miklir en Keflvíkingar börðust þó vel og liðið sem hefur verið að leika síðustu leiki er mjög ungt.
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindvíkinga var afar ósáttur við sína menn og segir í samtali við fotbolti.net að þeir hafi algerlega verið grafnir niður á hælana stóran hluta fyrri hálfleik.
Hann var spurður hvort umræða um að hann væri að hætta með liðið hafi verið vond fyrir leikmenn.
„Ég á ekki von á því. Það truflaði mig ekki og æfingavikan var mjög góð og fersk og ég á nú ekki von á því að það hafi eitthvað með þetta að gera. Enda þegar öllu er á botnin hvolft þá snýst þetta um að fara út að spila fótbolta. Það er það sem við viljum allir gera og þeir eru í þessu til að spila fótbolta og þegar þú kemur út á grasið eru ytri aðstæður ekki eitthvað sem þú átt að vera velta fyrir þér,“ sagði hann við fotbolta.net