Suðurnesjaliðin öll með sigur í Domino's karla
Nauðsynlegur sigur Njarðvíkinga
Það gekk vel hjá Suðurnesjaliðunum í Domino's-deild karla í gær en öll fóru þau með sigur af hólmi í sínum leikjum.
Tindastóll - Keflavík 71:86
Deildarmeistar Keflavíkur fóru á Sauðárkrók þar sem Tindastóll tók á móti þeim. Eftir fyrsta leikhluta leiddi Tindastóll með einu stigi (19:18) en í öðrum leikhluta tóku Keflvíkingar að síga fram úr Stólunum og höfðu náð sex stiga forskoti þegar gengið var til hálfleiks (37:43).
Keflvíkingar juku aðeins muninn í þriðja (56:67) og fjórða leikhluta og úrslit leiksins voru sannfærandi sigur deildarmeistaranna, 71:86.
Frammistaða Keflvíkinga: Calvin Burks Jr. 27/10 stoðsendingar, Dominykas Milka 25/8 fráköst, Deane Williams 17/12 fráköst, Valur Orri Valsson 9/6 stoðsendingar, Ágúst Orrason 5/4 fráköst, Reggie Dupree 3, Magnús Pétursson 0, Guðbrandur Helgi Jónsson 0, Þröstur Leó Jóhannsson 0, Arnór Daði Jónsson 0, Davíð Alexander H. Magnússon 0, Arnór Sveinsson 0.
KR - Grindavík 83:85
Grindavík fór í Vesturbæinn í gær þar sem heimamenn í KR tóku á móti þeim.
Þeir gulu náðu góðri níu stiga forystu í fyrsta leikhluta (11:20) og héldu henni út annan leikhluta. Staðan 34:43 í hálfleik.
Þriðja leikhluta vann Grindavík 18:20 og jók forystuna í ellefu stig en í þeim fjórða sóttu KR-ingar hart að Grindvíkingum og unnu upp muninn. KR komst yfir þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum (74:73) og náðu fjögurra stiga forskoti þegar tólf sekúndur voru eftir af leiknum (83:79).
Björgvin Hafþór Ríkharðsson setti þá niður þriggja stiga körfu og lítið eftir (83:82). Ólafur Ólafsson reyndist svo hetja Grindvíkinga þegar hann stal boltanum og setti niður annan þrist, lokatölur 83:85 fyrir Grindavík.
Frammistaða Grindvíkinga: Joonas Jarvelainen 22/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 16/4 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 15/10 fráköst, Amenhotep Kazembe Abif 13/9 fráköst, Bragi Guðmundsson 8, Kristinn Pálsson 6/8 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 3, Jóhann Árni Ólafsson 2, Jens Valgeir Óskarsson 0, Hafliði Ottó Róbertsson 0, Magnús Engill Valgeirsson 0, Þorleifur Ólafsson 0.
Njarðvík - Þór Akureyri 97:75
Njarðvík rær nú lífróður til að halda sæti sínu í Domino's-deildinni og sigur á Þór Akureyri kom þeim úr fallsæti í gær.
Þórsarar byrjuðu leikinn betur og höfðu náð fjögurra stiga forystu eftir fyrsta leikhluta (20:24). Njarðvíkingar börðust vel og bættu sig á öllum sviðum í öðrum leikhluta þar sem þeir unnu upp muninn og gott betur en það, staðan í hálfleik 40:36.
Njarðvíkingar bættu um betur í þriðja leikhluta og að honum loknum var munurinn orðinn sjö stig (68:61). Þeir létu svo kné fylgja kviði í síðasta leikhluta og það var eins og allur vindur væri úr Norðlendingum. Niðurstaðan 22 stiga sigur, 97:75, sem kemur Njarðvík í níunda sæti deildarinnar. Njarðvík og ÍR eru bæði með fjórtán stig en þessi lið mætast í næstu umferð. ÍR, Höttur og Haukar hafa leikið einum leik færri en Njarðvík, Haukar og Höttur eru tveimur stigum á eftir Njarðvík og ÍR en þessi þrjú lið eiga öll að spila í kvöld.
Njarðvíkingar hafa ekki sagt sitt síðasta og ætla augljóslega að berjast til síðasta blóðdropa til að tryggja áframhaldandi veru sína í Domino's-deildinni.
Frammistaða Njarðvíkinga: Rodney Glasgow Jr. 24, Kyle Johnson 24/8 fráköst, Antonio Hester 14/12 fráköst/5 stoðsendingar, Mario Matasovic 12/4 fráköst, Jón Arnór Sverrisson 9, Maciek Stanislav Baginski 8, Logi Gunnarsson 3, Ólafur Helgi Jónsson 3, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Baldur Örn Jóhannesson 0, Bergvin Einir Stefánsson 0, Veigar Páll Alexandersson 0.