Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Suðurnesjaliðin í broddi fylkingar í bikarviku KKÍ
Keflavík og Njarðvík mætast í fyrri undanúrslitaleik kvenna og hefst leikurinn kl. 17:15 á miðvikudaginn.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 18. mars 2024 kl. 09:59

Suðurnesjaliðin í broddi fylkingar í bikarviku KKÍ

Bikarvika KKÍ er framundan en þá verður bikarkeppnin útkljáð, fyrst með undanúrslitaleikjum á þriðjudag og miðvikudag, síðan eru úrslitaleikir meistaraflokkanna á laugardag. Öll Suðurnesjaliðin eiga fulltrúa í undanúrslitum meistaraflokks kvenna en Keflavík heldur heiðrinum á lofti karlamegin. Víkurfréttir tóku púlsinn á þjálfurum liðanna.

Ég held að þetta sé kjörinn vettvangur og tímapunktur til að vinna Keflavík í fyrsta skipti á þessu tímabili

Rúnar Ingi Erlingsson er þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur.

„Það var gott að komast aftur á sigurbraut í síðasta leik í deildinni eftir fjögur töp í röð. Við lentum í niðursveiflu en áttum góðan leik á móti Keflavík sem tapaðist á vítalínunni þegar leiktíminn var nánast runninn út. Þess vegna voru mikil vonbrigði hvernig við mættum í leikinn þar á eftir á móti Grindavík en gott að hrista slyðruorðið af okkur á móti Stjörnunni og vinna góðan sigur, gott að fá þessa sigurtilfinningu aftur. Það voru búin að vera einhver meiðsli hjá okkur en nú eru allar klárar og við erum tilbúnar í þennan leik á móti grönnum okkar. Þó svo að við höfum tapað öllum leikjunum á móti þeim í vetur þá voru tveir af þessum leikjum í Ljónagryfjunni hörkuleikir sem gátu endað á hvorn veginn sem var. Þessir leikir skipta hins vegar engu máli á miðvikudaginn, þetta er bara einn leikur og þá gildir að mæta tilbúin til leiks. Í enda dagsins er þetta bara bikarleikur milli Njarðvíkur og Keflavíkur og það er nú einu sinni þannig í körfu eins og öðrum íþróttum, það þarf að vinna á réttum tímapunkti og ég held að þetta sé kjörinn vettvangur og tímapunktur til að vinna Keflavík í fyrsta skipti á þessu tímabili.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það sem við þurfum að gera til að vinna Keflavík er að stjórna því sem við erum að gera inni á vellinum, við þurfum að halda leikskipulagi og að sjálfsögðu þurfum við að spila góða vörn. Keflavík er þannig lið að þær skora í kippum, geta kannski sett fimmtán stig á töfluna í röð. Ef við náum að koma í veg fyrir þessi áhlaup, hið minnsta að stytta þau, þá aukast sigurlíkur okkar. Við þurfum að vera skynsamar í sóknarleiknum á meðan þær finna takt sóknarlega. Keflvíkingar eru eitt skilvirkasta hraðupphlaupslið landsins, við þurfum að klára okkar sóknir vel og hleypa þeim ekki upp.

Ég vil sjá stúkuna fulla af Reykjanesbæingum. Leiktíminn er svo sem ekki að vinna með okkur en þá er tímapunkturinn núna fyrir fólk að gera ráðstafanir. Það er ekki á hverjum degi sem við sjáum Njarðvík gegn Keflavík í Höllinni, ég trúi ekki öðru en stuðningsmenn beggja liða fjölmenni,“ sagði Rúnar Ingi.


Liðið sem mætir tilbúnara vinnur, svo einfalt er það

Sverrir Þór Sverrisson er þjálfari kvennaliðs Keflavíkur.


„Þessi leikur leggst mjög vel í mig, ég veit að þetta verður erfiður leikur og við þurfum að mæta tilbúnar til leiks. Þær eru með vel mannað lið, með góða bakverði og öfluga útlendinga. Við erum búin að spila þrisvar sinnum við þær í vetur, tveir þeirra leikja gátu dottið hinum megin svo þessir sigurleikir skipta minna en engu máli og þeir telja ekki neitt þegar út í einn svona hörkuleik er komið. Liðið sem mætir tilbúnara vinnur, svo einfalt er það. 

Leiðin okkar að sigri í þessum leik er frábær liðsvörn og við þurfum að frákasta vel. Ef ég fæ framlag frá öllum leikmönnum á báðum endum vallarins er ég vongóður um góð úrslit.

Standið á mínu liði er gott, við fengum frábæran liðsstyrk í Söru Rún Hinriksdóttur, hún hefur komið vel inn í þetta hjá okkur og við erum á góðu róli myndi ég segja. Tímabilið hefur verið gott hjá okkur, við erum bara búnar að tapa tveimur leikjum og kannski athyglisvert að þau töp komu á móti liðum sem eru í B-deildinni, þ.e. enduðu ekki í efri hluta deildakeppninnar. Við unnum góðan sigur á móti Haukum í síðasta leik og nú fer allur fókusinn á bikarkeppnina, það er alltaf gaman að koma í Höllina.“

Sverrir hefur verið mjög sigursæll í gegnum tíðina. Hann hefur sex sinnum komist bikarúrslitaleikinn sem þjálfari og fimm sinnum hampaði hann sigri, árið 2012 með kvennalið Njarðvíkur, árið 2014 með karlalið Grindavíkur, árið eftir með kvennalið Grindvíkinga og árin 2017 og 2018 fagnaði hann með sínum dömum í Keflavík. Það var bara árið 2013 sem Sverrir þurfti að lúta í gras, með karlalið Grindavíkur sem tapaði fyrir Stjörnunni. Sverrir vill sjá stúkuna fulla á miðvikudag.

„Ég trúi ekki öðru en stuðningsmenn beggja liða muni fjölmenna á þennan leik, frábært fyrir Reykjanesbæ að fá bæði liðin í Höllina. Það hefði verið gaman að mætast í úrslitaleik en maður fær víst ekki allt sem maður óskar sér,“ segir Sverrir Þór.


Á þessum fræga pappír eigum við að vera betri

Þorleifur Ólafsson er þjálfari kvennaliðs Grindavíkur.

„Þetta verður mín fyrsta reynsla sem þjálfari í Laugardagshöllinni en ég komst nokkrum sinnum þangað sem leikmaður, hef bæði fagnað sigri en líka þurft að sætta mig við tap. Þessi leikur á móti Þór er fyrirfram hættulegur, ég er einfaldlega skíthræddur því Þór er með hörkugott lið. Á þessum fræga pappír eigum við að vera betri en ég hef tvisvar sinnum sem leikmaður verið farinn að plana úrslitaleikinn því fyrirfram átti andstæðingurinn í undanúrslitum að vera auðveldur. Athyglisverð tilviljun að í bæði þessi skipti var andstæðingur okkar ÍR og við vorum á heimavelli í báðum leikjum, í hinum undanúrslitaleiknum mætti Keflavík liði Hamars og tapaði í báðum tilfellum sömuleiðis, ÍR - Hamar í bikarúrslitum í þessi tvö skipti. Þetta segir manni að allt getur gerst í bikarleik. Ég mun pottþétt nota þetta í ræðu minni fyrir leikinn til að reyna undirbúa mína leikmenn sem best. Ég veit að Þórskonur koma brjálaðar til leiks, þær ætla sér að koma sér í bikarúrslit alveg eins og við.

Annars er standið á mínu liði fínt, það voru auðvitað vonbrigði að Kaninn sem ég fékk kom í raun aldrei. Hún var varla lent þegar hún vildi komast heim, það var alveg sama hvað ég reyndi að fá hana til að prófa að gefa sig alla í þetta og sjá hvort henni myndi þá ekki fara líða betur, ég talaði fyrir daufum eyrum og þess vegna var ekki erfið ákvörðun að senda hana heim. Það er smá möguleiki að Hekla Eik Nökkvadóttir verði klár, hún er farin að æfa mun meira og auðvitað yrði styrkur fyrir okkur að endurheimta hana enda hörkuleikmaður þar á ferð. Gengi okkar stendur samt ekki eða fellur með Heklu, hún verður bara góður bónus fyrir okkur ef hún verður með. Það sem við þurfum að gera til að vinna þennan leik er að mæta tilbúnar. Auðvitað verðum við með okkar leikplan en aðalatriðið hjá okkur er að mæta tilbúnar, ef við mætum værukærar til leiks er stutt í vandamál hjá okkur. 

Ég veit að stúkan verður meira og minna gul á miðvikudagskvöld. Við Grindvíkingar erum þekktir fyrir að mæta vel þegar liðin okkar komast í Laugardalshöllina. Ég hlakka mikið til og stefni að sjálfsögðu á að mæta með liðið mitt í úrslitaleikinn á laugardaginn,“ segir Þorleifur.


Ef hann kemur honum í stand mun ég biðja hann um að færa mér hár aftur á hausinn

Karlamegin er Keflavík eini fulltrúi Suðurnesjaliðanna, Pétur Ingvarsson er þjálfari þeirra.

„Þetta leggst auðvitað vel í mig, það eru fjögur lið komin í Höllina en þau 26 sem hófu leik vildu líka vera þarna. Það er mikil athygli á þessu, RÚV sinnir þessu vel svo við erum mjög ánægðir að vera á meðal þátttakenda. Við mætum Stjörnunni en Stjarnan vann einmitt Keflavík í undanúrslitum í fyrra. Gengi Stjörnunnar í bikarnum er lygilegt í sögulegu samhengi, ekki bara í körfubolta heldur í íþróttum almennt. Teitur Örlygs stýrði þeim til ótrúlegs sigurs 2009 á móti stjörnum prýddu liði KR og hann endurtók svo leikinn á móti Grindavík 2013. Ég man ekki hvenær Arnar tók við Stjörnuliðinu, það var fyrst í fyrra sem hann tapaði úrslitaleik, ótrúlegur árangur og ljóst að við þurfum að mæta tilbúnir til leiks.

Standið á mínu liði er ágætt en við vorum að missa Halldór Garðar Hermannsson, fyrirliða, í meiðsli. Hann tognaði aftan í læri í leiknum á mánudaginn á móti Hetti og ekki nema kraftaverk muni eiga sér stað, geri ég ráð fyrir að hann verði orðinn tilbúinn fyrir þennan leik. Blindir fengu víst sýn þegar Jesús mætti á sínum tíma, ef hann heimsækir Hermann fyrir þennan leik og kemur honum í stand mun ég biðja hann um að færa mér hár aftur á hausinn. Líkurnar á þessu eru hverfandi svo ég geri ekki ráð fyrir að Halldór verði með okkur í þessum leik. Það er slæmt því hann er lykilmaður hjá okkur en þá verður bara næsti leikmaður að stíga upp.

Það sem við þurfum að gera til að vinna þennan leik er að eiga toppleik sóknar- og varnarlega. Þeir eru með leikmenn eins og Ægi Þór, hann getur þess vegna skorað 40 stig, gefið tuttugu stoðsendingar og hlaupið á 170 km hraða, við þurfum að reyna halda honum í skefjum. Svo þurfum við að reyna lesa hvaða bikartaktík Arnar mun láta þá leika og reyna leysa úr því. Hann þarf samt auðvitað að hafa áhyggjur af okkur líka og ef við náum að leika okkar leik líst mér vel á okkar möguleika en það má lítið bera út af svo líkurnar detti Stjörnumegin. Þó svo að við séum búnir að vera betri en þeir í vetur þá telur það nákvæmlega ekkert þegar út í svona leik er komið.

Ég skora hér með á stuðningsmenn Keflavíkur að sýna okkur meiri stuðning. Þeir vilja að við gerum betur en Stjörnumenn inni á vellinum, við viljum sjá þá gera betur en stuðningsmenn Stjörnunnar í stúkunni,“ sagði Pétur að lokum.