Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Styttist í nágrannauppgjör
Fimmtudagur 27. október 2005 kl. 13:47

Styttist í nágrannauppgjör

Grindavíkurkonur eru efstar í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik eftir fjóra sigra í röð. Á hæla þeirra koma Keflavíkurstúlkur með þrjá sigra í röð og eiga þær einn leik til góða gegn Haukum að Ásvöllum.

Þann 9. nóvember n.k. verður svo fyrsta uppgjör toppliðanna þegar Grindavíkurkonur mæta í íþróttahúsið að Sunnubraut.

„Ég er mjög rólegur yfir þessu öllu saman,“ sagði Unndór Sigurðsson, þjálfari Grindavíkur, í samtali við Víkurfréttir í dag. „Leiktíðin í kvennaboltanum á það til að skiptast í tvennt, fyrir áramót og eftir áramót. ÍS á örugglega eftir að fá sér erlendan leikmann eftir áramót og nú bráðlega fær KR leikheimild fyrir tvo serbneska leikmenn,“ sagði Unndór.

Aðspurður um komandi viðureign gegn Keflavík sagði Unndór:
„Ég hef gífurlega trú á því að við getum staðið í Keflavík og unnið þær. Við erum með lágvaxið lið en ætlum okkur samt að klára leiktíðina með stæl. Ég bíð spenntur eftir Keflavíkurleiknum því eftir hann sjáum við betur hvar við stöndum. Mörg lið eru með einhverja grýlu í eftirdragi varðandi við að leika í Keflavík en það er mitt hlutverk að losa leikmennina við þessa grýlu áður en við komum til Keflavíkur.“

Birna Valgarðsdóttir, leikmaður Keflavíkur, var ekki síður spennt yfir leiknum gegn Grindavík en Keflavík mætir fyrst Haukum áður en nágrannaslagurinn fer fram.
„Grindavík býr yfir ungum og efnilegum stelpum og það verður gaman að takast á við þær. Grindvíkingum vantar engu að síður stóran leikmann í liðið og ég hef trú á því að þær fái Evrópuleikmann til liðs við sig og það myndi gera hlutina enn meira spennandi,“ sagði Birna en hún stefnir ótrauð að því að halda til haga öllum þeim titlum er liðið vann til á síðasta ári.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024