Styrkir veittir úr Manngildissjóði Reykjanesbæjar
Íþrótta-og tómstundaráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að styrkja þau Erlu Dögg Haraldsdóttur og Árna Má Árnason um krónur 400.000 hvort. Þau verða fulltrúar Íslands á Ólympíuleikunum í Peking í Kína. Erla Dögg keppir í 100m bringu og 200m fjórsundi. Árni Már keppir í 50 m skriðsundi.
Árni Sigfússon bæjarstjóri afhenti þeim styrkinn 18.júlí sl. Auk þess fengu þeir Birkir Már Jónsson sundmaður og Jóhann R. Kristjánsson borðtenniskappi styrk að upphæð 200.000 krónur hvor vegna undirbúnings en þeir voru mjög nálægt því að komast á leikana.
Í fyrra fengu Erla, Birkir Már og Jóhann styrk að upphæð 400.000 krónur hvert til að undirbúa sig og taka þátt í mótum erlendis.
Alls hafa þessir fjórir afreksmenn Reykjanesbæjar fengið 2,4 milljónir á tveimur árum í styrki en mikill kostnaður fer í þátttöku á mótum erlendis til að ná lágmörkum inn á Ólympíuleikana.
Styrkirnir eru veittir úr Manngildissjóði Reykjanesbæjar.
Mynd: Árni Sigfússon, bæjarstjóri, Jóhann R.Kristjánsson, Erla Dögg Haraldsdóttir, Árni Már Árnason og Steindór Gunnarsson, þjálfari.
Mynd-VF/Gunnar