Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Styrkir Keflavík stöðu sína á toppnum?
Fimmtudagur 1. nóvember 2007 kl. 12:00

Styrkir Keflavík stöðu sína á toppnum?

Fimm leikir fara fram í Iceland Express deild karla í kvöld og hefjast þeir allir kl. 19:15. Mesta athygli vekur líkast til viðureign Íslandsmeistara KR og Njarðvikur í DHL-Höllinni en þetta er fyrsti deildarleikur millum liðanna síðan KR hampaði þeim stóra. Þá koma bikarmeistarar ÍR í heimsókn í Sláturhúsið og fá það vandasama verkefni að mæta funheitum Keflvíkingum.

 

Keflavík skellti Njarðvík í grannarimmu liðanna síðasta sunnudag og sitja þeir nú einir á toppi deildarinnar með 8 stig. ÍR sendi erlendu leikmenn sína heim á dögunum og mættu með alíslenskt lið gegn Skallagrím og höfðu þar góðan sigur í spennuleik. Ætli þeir sér að eiga eitthvert erindi á Suðurnesin í kvöld verða þeir að eiga glimrandi góðan leik gegn Keflavík sem virðast vera komnir í Íslandsmeistaragír. Þá hefur það skipt Keflavík miklu máli að fá Jón N. Hafsteinsson góðan en hann er að leika fantavel um þessar mundir og vinna mikla vinnu fyrir liðið. Jón hefur lengi verið að glíma við meiðsli og gjarn á að detta inn og út úr hópnum hjá Keflavík. Með hann í toppformi eru Keflvíkingar, eins og sést, á toppi deildarinnar.

 

Grindvíkingar mæta Tindastóli á Sauðárkróki en Stólarnir hafa komið verulega á óvart það sem af er leiktíðar með þremur sigrum og einum tapleik og hafa sama sigurhlutfall og Grindavík.

 

Aðrir leikir kvöldsins eru:

 

Stjarnan-Þór Akureyri

Skallagrímur-Fjölnir

 

Umferðinni lýkur svo annað kvöld í Hveragerði þegar Hamar tekur á móti Snæfell.

 

Staðan í deildinni

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024