Sturla sterkastur
Sturla Ólafsson sigraði nýverið í keppninni um Sterkasta mann Íslands, -105 kg annað árið í röð.
Fyrsta greinin var lóða og kútakast yfir rá á tíma. Kastað var 15 kg bjórkút, tveimur 16 kg ketilbjöllum, 20 kg bjórkút og 25 kg lóði yfir 3,65m. Sturla sigraði í þessari grein á 17,02 sek. Næsti á eftir var á 19,21 sek. Frábær spenna í þessari grein.
Næsta grein var 50 kg Sirkus handlóð á 90 sek. Andri Björns tók mjög traustan sigur með 13 lyftur. Sturla deildi þar öðru sætinu með 10 lyftur.
Þriðja grein var vel þungur trukkadráttur með traktor upp mikinn halla og dregið 25 metra á hellulagðri gangstétt. Aðeins tveir menn gátu klárað og það voru reynsluboltarnir, Árni Freyr og Sturla, en Sturla var með betri tíma, 58,4 sek. en Árni fór brautina á 74,65 sek.
Næsta grein var 105 kg bóndaganga, 25 metrar á tíma. Eina ferðina enn var mikil spenna í greininni og Árni Freyr og Sturla voru næstum jafnir á tíma en Stulli vann með 10,03 sek á móti 10,75 sek.
Síðasta greinin var Atlassteina hleðsla, 90, 110, 125 og 140 kg. Úrslit þessarar greinar kom mörgum á óvart þar sem Andri Björns var sá eini sem náði að klára greinina. Steinarnir voru á grasi og þegar menn eru með harpix á puttunum festist grasið bara í harpixinu og það truflaði vissulega keppendur. Árni Freyr var í öðru sæti í þessari grein og Sturla í þriðja, báðir undir 20 sek. með 3 steina.
Annar Suðurnesjamaður, Daníel Sæmundsson tók þátt í keppninni og hafnaði í 8. sæti.