Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Stundum þarf að finna aðrar leiðir en „samba boltann“ til að vinna leiki
Guðmundur Steinarsson, þjálfari Njarðvíkur
Fimmtudagur 21. maí 2015 kl. 15:00

Stundum þarf að finna aðrar leiðir en „samba boltann“ til að vinna leiki

-Guðmundur Steinarsson, þjálfari Njarðvíkur ánægður með gengi liðsins í byrjun sumars

Njarðvíkingar hefja fótboltasumarið af miklum krafti þetta árið og hefur liðið unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni auk þess að vera komnir í 32 liða úrslit í Borgunarbikarnum eftir sannfærandi 1-4 sigur á Augnablik á þriðjudagskvöldið. Guðmundur Steinarsson stýrir Njarðvíkurskútunni ásamt Ómari Jóhannssyni og hafði þetta að segja um það hvort að þessi góða byrjun liðsins kæmi liðinu á óvart:

Já og nei. Úrslit úr leikjum vetrarins voru búin að gefa til kynna að við værum á betri stað en á sama tíma í fyrra. En það voru samt nokkur spurningarmerki í leik liðsins. Hingað til hefur tekist vel til. Það er samt svo lítið búið að það má alls ekki gleyma sér í gleðinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig hefur spilamennska liðsins í heild komið þér fyrir sjónir? Er liðið að spila sinn besta fótbolta strax í byrjun sumars?

Hún er í lagi það sem af er. Vellirnir eru ekki komnir í sitt besta stand og þá þarf stundum að finna aðrar leiðir til að vinna leiki en með ,,samba bolta”. Við höfum náð að finna þá leið í þeim leikjum sem við erum búnir með og eiga strákarnir hrós skilið fyrir það. En við eigum eftir að sýna okkar bestu hliðar og erum enn að bæta okkur í hverjum leik.

Þið fáið góðan liðsstyrk í Marc Ferrer korter í mót. Þú hlýtur að vera ánægður með það sem þú ert að fá frá honum hingað til og væntanlega sáttur að hann valdi að spila með Njarðvík en ekki keppinautum ykkar í Leikni Fáskrúðsfirði eins og til stóð?

Já, okkur Ómari fannst vanta smá reynslu í liðið. Við duttum inná Marc og er hann að skila því sem við bjuggumst við af honum. Verð að játa því að ég er sáttur með að hann skildi velja okkur fram yfir sína gömlu félaga í Leikni, það er ekki spurning.

Eru Njarðvíkingar með yfirýst markmið fyrir sumarið? Er stefnan tekin á 1. deildina?

Við erum ekki með yfirlýst markmið, nema þá þau að fara betur af stað en í fyrra og það er þegar komið. Það væri virkilega gaman að vera í baráttunni um 1. deildar sæti þegar líða fer að lokum móts. Við höfum sagt að það eru bara tvö sæti sem gefa eitthvað í þessari deild og það er eins með okkur og hin liðin, að okkur langar í annað af þessum sætum.

Þið eigið heimaleik á laugardaginn gegn Dalvík/Reyni sem situr á botni deildarinnar með ekkert stig og markatöluna 0-8. Hvernig blasir sá leikur við þér svona fyrirfram?

Þetta verður eins og hinir tveir leikirnir sem við erum búnir með, mikil barátta um allan völl. Við þekkjum það að vera í þessari stöðu sem Dalvík/Reynir er í , vorum í svipaðri stöðu í fyrra. Það verður okkar að sýna að þessir sigrar hingað til séu ekki tilviljun. Einnig langar okkur að hafa heimavöllinn sterkan og þessi leikur verður liður í því að gera hann að þeirri gryfju sem við byrjuðum á í síðasta leik.