Stuðningur bæjarbúa er ómetanlegur
- Segir Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindvíkinga sem bjóst ekki við að félagið yrði í baráttu um Evrópusæti
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur í Pepsi-deild karla, er hæstánægður með gengi liðsins í sumar. Fimm leikir eru eftir af deildinni og stefnan er sett á Evrópusæti en þó eru erfiðir útileikir eftir. Óli Stefán vonast til þess að Keflvíkingar tryggi sér sigur í Inkasso-deild karla því Suðurnesjaleikirnir séu þeir allra skemmtilegustu. Blaðamaður Víkurfrétta hitti Óla Stefán og spjallaði um sumarið, framhaldið og markmið liðsins.
Einn leikur í einu
Grindavík á leik gegn FH á heimavelli Hafnfirðinga næstkomandi sunnudag. „Það eru smávægileg meiðsli innan hópsins hér og þar en við erum með fínan hóp til þess að díla við þetta allt saman. Í dag er stefnan tekin leik fyrir leik, sem stendur erum við í skemmtilegu tækifæri, bullandi Evrópusætabaráttu. Þetta gæti farið á báða bóga, getum sogast niður töfluna ef við erum ekki grimmir að sækja úrslit eða við gætum lent í Evrópukeppninni ef við gefum allt í leikina og fáum góð úrslit. Það er virkilega spennandi.“
Stuðningurinn mikilvægur
„Stuðningur liðsins og kúltúrinn í kringum liðið hefur breyst mikið, við höfum fundið mikinn stuðning bæði á vellinum og úti í bæ. Þó svo við höfum verið að tapa þá er stuðningurinn sterkur, meira að segja þegar við höfum tapað stórt. Svona skilgreini ég einmitt stuðning, það er ekkert mál að styðja þegar gengur vel en það reynir á þegar illa gengur. Mér fannst fólk halda vel við bakið á okkur þegar illa gekk. Það er búið að vera mikil vinna að sækja stuðninginn, mikil vinna inn á við og núna er hún að skila sér. Mér finnst það jákvætt og skemmtilegt þegar það ríkir jákvæðni og samstarf.“
Kemur velgengni liðsins þér á óvart?
„Mitt markmið var að staðsetja liðið í deildinni og ég bjóst ekki við því að við myndum byrja eins raunin var. Við fengum góð úrslit, vorum að spila vel en svo jafnaðist þetta allt út á slæmum kafla en það voru risa úrslit okkur í hag til að byrja með. Ég bjóst alveg við því að við myndum halda okkar veru í þessari deild en að vera að berjast um Evrópusæti er eitthvað sem ég bjóst ekki við á þessum tímapunkti.“
Markmið Grindavíkur var að ná í 22 stig í deildinni og halda þar með sæti sínu í deildinni. Óli Stefán segir að liðið hafi verið ansi nálægt því snemma í sumar en þurfti aðeins að bíða eftir því að komast yfir stigalínuna. „Það kom á endanum og við höldum ótrauðir áfram og viljum gera betur en Grindavík hefur gert áður stigalega séð en besti árangur Grindavíkur er 31 stig. Við eigum sex stig í það og vinnum þetta leik frá leik.“
Baráttuleikur í Kaplakrika
Eins og staðan er í dag er FH jafnt Grindavík að stigum en er með betri markatölu og eiga leik til góða. „Á sunnudaginn er tækifæri fyrir okkur að velta FH-ingum af stalli. Þeir eru með mjög gott lið en hafa verið að ströggla aðeins í deildinni. Við eigum erfiða útileiki eftir gegn FH, ÍBV og KA. Mér persónulega finnst samt alltaf gaman að spila þessa leiki. Ég elska að fara út á land og spila. Við reynum alltaf að búa til góða stemningu í kringum útileikina og lítum jákvætt á þá. Grindavík hefur verið að sýna góða spilamennsku í síðustu leikjum sínum og við ætlum að taka frammistöðuna úr þeim leikjum, vinna úr henni og tryggja lokaleikina.“
Misstu þrjá heimamenn
Óli Stefán segir að breiddin í hópnum sé góð, það sé skemmtileg blanda af erlendum leikmönnum, heimamönnum og leikmönnum sem koma ekki frá Grindavík en spila með liðinu. „Ég hef reynt að búa til lið sem státar af fleiri heimamönnum en það auðveldaði okkur hins vegar ekki að missa þrjá sterka leikmenn á besta aldri. Jósef, Óli Baldur og Markó fóru eða hættu og því er þessi vinna byrjuð aftur. Marínó Axel hefur komið mjög sterkur inn og það eru leikmenn sem fæddir eru 1999, 2000 og 2001 sem koma sterkir inn á næstu einu til tveimur árum.“
Skýr markmið frá byrjun
„Við höfum alltaf haft skýr markmið, vissum hvað við getum og hvert við ætluðum, þau markmið voru skýr á fimm ára planinu. Við erum tveimur árum á undan því eins og staðan er í dag. Fimm leikir eru samt sem áður eftir af tímabilinu og það væri frábært að komast í Evrópukeppnina.“
Gróska hjá Suðurnesjaliðunum
„Nánast öll liðin í knattspyrnunni á Suðurnesjum hafa verið að standa sig mjög vel í boltanum. Ég vona persónulega að Keflavík komist upp í Pepsi-deildina því það er lang skemmtilegast að spila þar. Stelpurnar hér í Grindavík eru á svipuðu róli og við að reyna að staðsetja sig í deildinni með ungt og efnilegt lið, góða erlenda leikmenn og stelpur sem koma ekki héðan. Það eru spennandi tímar á þessu svæði og það sýnir að fólk er að vinna sína vinnu vel sem er mikilvægt í þessum bransa.“
Alltaf hægt að bæta aðstöðuna
Grindvíkingar geta æft allt árið í Hópinu sem er knattspyrnuhús en Óla Stefáni finnst vanta gervigrasvöll úti. „Það væri frábært að fá útivöll í fullri stærð, þá gætum við spilað alla okkar vetrarleiki hér í Grindavík og þyrftum ekki að sækja þá út fyrir bæjarfélagið. Við eigum alltaf að reyna að bæta aðstöðuna okkar og þrýsta á bæjaryfirvöld. Það er líka mikilvægt að miða sig við bestu aðstöðuna, ekki næst bestu. Í bæjarfélagi eins og okkar sem stendur sterkt að vígi ætti það ekki að vera neitt mál.“