Stuðningsmaður Grindavíkur segir Guðjón ljúga
Jón Gauti rekur feril Guðjóns Þórðar hjá Grindavík
Jón Gauti Dagbjartsson stuðningsmaður Grindvíkinga í knattspyrnu fór mikinn í sjónvarpsþætti 433.is á sjónvarpsstöðinni ÍNN í gær, þar sem hann ræddi tíð Guðjóns Þórðarsonar hjá félaginu. Eins og talsvert hefur verið fjallað um þurfa Grindvíkingar að greiða Guðjóni 8,4 milljónir króna í skaðabætur fyrir vangoldin laun. Jón Gauti sakar Guðjón um ítrekaðar lygar í viðtalinu sem sjá má hér að neðan.
Guðjón var í viðtali í sama þætti í síðustu viku og sagði sína hlið málsins. Jón Gauti segir að sér hafi blöskrar yfir mörgu sem Guðjón sagði í þeim þætti. „Hann lýgur alveg hiklaust. Blaðamenn fara alltaf silkihönskum um þennan gæja,“ sagði Jón Gauti. Hann segir Guðjón hafa sinnt starfi sínu illa og ekki mætt á allar æfingar liðsins. „Hann sinnti starfi sínu mjög illa. Það voru örugglega fleiri en 30 æfingar sem hann var ekki á.“
Jón Gauti var einn af þeim sem vildi fá Guðjón til félagsins á sínum tíma. Hann viðurkennir þó að hann hafi haft rangt fyrir sér. „Knattspyrnudeild Grindavíkur er ekki fullkominn, það er enginn fullkominn. Svo sannarlega ekki Guðjón Þórðarson, langt því frá.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér í myndbandi að neðan.
Viðtal við Jónas Þórhallsson formann knattspyrnudeildar Grindavíkur í VF.