Stórtöp hjá kvennaliðunum
Suðurnesjaliðin í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu riðu ekki feitum hesti frá viðureignum sínum í kvöld. Bæði Keflavík og GRV, sameinað lið Grindavíkur, Reynis og Víðis, töpuðu með miklum mun. GRV fyrir toppliði Vals, 0-5, og Keflavík fyrir Breiðabliki, 10-0, í Kópavogi.
GRV stóð lengi vel í stórliði Vals þar sem staðan var einungis 0-1 í hálfleik og 0-2 þegar 10 mínútur voru til leiksloka. Þá tóku meistararnir á sig rögg og skoruðu þrívegis áður en yfir lauk, en þriðja mark leiksins kom úr vítaspyrnu.
Botnlið Keflavíkur átti aldrei möguleika gegn sterku liði Breiðabliks, sem er í öðru sæti deildarinnar. Fyrsta markið kom á 3. mínútu og svo duttu þau inn eitt af öðru, en þau tvö síðustu komu á lokamínútum leiksins.
Keflavík er enn á botni deildarinnar, án stiga eftir 13 umferðir, en GRV er í nokkru betri stöðu, í 8. sæti, en þó nokkru fyrir ofan lið ÍR sem er í því 9.