Stórt tap hjá Grindavík gegn Val
Valskonur völtuðu yfir Grindvíkinga í Dominos deild kvenna í Valsheimilinu í dag, 103-63. Valur hafði ekki unnið leik í deildinni í vetur fram að þessu og var liðið greinilega orðið hungrað í sigur.
Leikurinn var jafn eftir fyrsta leikhluta, 15-15, en svo hóf Valur sig á flug, þaut fram úr Grindvíkingum og skoraði heil 39 stig í öðrum leikhluta. Staðan í hálfleik var 54-32. Grindvíkingar náðu sér ekki á strik í seinni hálfleik og Valur bætti bara í. 40 stiga tap raunin hjá Grindavík gegn sterku liði Vals, 103-63.
Ashley Grimes var stigahæst hjá Grindavík, 22 stig og 10 fráköst. Íris Sverrisdóttir var með 11 stig og 5 fráköst. Hjá Valskonum var Mia Loyd með 30 stig, 8 fráköst, 7 stoðsendingar og 6 stolna bolta og Hallveig Jónsdóttir kom sterk af bekknum og skilaði 22 stigum og var með 3 stolna bolta.