Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriðjudagur 10. júní 2003 kl. 08:53

Stórsigur Reynis á ÍH

Reynir vann sannfærandi 7-0 sigur á Í.H. s.l. föstudagskvöld í skemmtilegum leik við góðar aðstæður á Sandgerðisvelli. Greinilegt var frá upphafi að Reynismenn voru sterkari aðilinn í leiknum, en það var ekki fyrr en á 33. mínútu að þeir náðu að brjóta niður varnarmúr Hafnfirðinganna.Guðmundur G. Gunnarsson náði þá að skora með fallegu skoti utan úr teignum. Strax í upphafi seinni hálfleiks skoraði besti maður leiksins, Hafsteinn Helgason, fallegt mark beint úr aukaspyrnu og kom Reyni í 2-0. Stuttu síðar varði Eyþór Örn Haraldsson glæsilega í marki Reynis þegar tveir leikmenn Í.H. sluppu einir innfyrir vörn Reynis. Vilhjálmur Skúlason bætti þriðja marki Reynis við á 57. mínútu og gáfust Hafnfirðingar þá endanlega upp. Síðasta hálftíma leiksins kom getumunur liðanna greinilega í ljós og Sandgerðingarnir bættu fjórum mörkum við. Fyrst skoraði Hafsteinn Þór Friðriksson, síðan bætti Vilhjálmur Skúlason tveimur mörkum við og fullkomnaði þar með þrennu sína og varamaðurinn ungi Sveinn Ingi Ástvaldsson skoraði glæsilegt mark þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Á lokamínútu leiksins vísaði góður dómari leiksins, Magnús Jón Björgvinsson, Garðari Dagssyni í liði Í.H. af leikvelli fyrir að veitast að leikmanni Reynis og þjálfari Í.H. þurfti síðan að fara sömu leið fyrir mótmæli. Sigur Reynis var sannfærandi og sanngjarn og mega Hafnfirðingar þakka Magnúsi Smárasyni markverði að hafa ekki tapað stærra í Sandgerði.

Mörk Reynis: Vilhjálmur Skúlason (57. mín, 65. mín og 73, mín); Guðmundur G. Gunnarsson (33. mín); Hafsteinn Helgason (47. mín); Hafsteinn Þór Friðriksson (64. mín); og Sveinn Ingi Ástvaldsson (88. mín).
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024