Stórsigur Keflavíkur í Árbænum
Keflvíkingar unnu glæsilegan sigur á Fylki í Pepsi-deild karla í knattspyrnu fyrr í kvöld. Lokatölur urðu 2-4 en leikið var í Árbænum. Þeir Hörður Sveinsson og Magnús Sverrir Þorsteinsson skoruðu báðir tvö mörk í leiknum.
Gestirnir frá Bítlabænum byrjuðu með látum en Magnús skoraði strax eftir 13 mínútna leik. Framherjinn skoraði þrennu í bikarleiknum gegn Hamarsmönnum á dögunum og er því óðum að finna fjölina sína um þessar mundir. Hörður Sveinsson skoraði tvívegis fyrir leikhlé og Keflvíkingar því nánast búnir að gera út um leikinn í fyrri hálfleik. Fylkismenn minnkuðu muninn á 55. mínútu en Mangús Sverrir svaraði fyrir Keflvíkinga mínútu síðar, staðan 1-4. Fylkismenn fengu svo vítaspyrnu undir lok leiksins og náðu að laga stöðuna í 2-4. Keflvíkingar eru í þriðja sæti deildarinnar eftir leikinn með 16 stig eftir níu leiki.