Stórsigur Keflavíkur á Skagastelpum
Keflavík vann stórsigur á ÍA í Inkasso-deild kvenna á Íslandsmótinu í knattspyrnu í gærkvöldi. Leiurinn fór fram á Akranesi og lokastaðan var 5-1 sigur Keflavíkurkvenna.
Sveindís Jane Jónsdóttir var með þrennu í leiknum. Hún skoraði fyrsta mark sitt strax á 15. mínútu og bætti við tveimur á 78. og 81. mínútu. Hin tvö mörkin skoruðu Sophie Groff á 42. mínútu og Kristrún Ýr Holm á 90. mínútu leiksins.
Keflavík er á toppi Inkasso-deildar kvenna með 34 stig. Þær hafa aðeins tapað einni viðureign í sumar, sem var í síðustu umferð. Þær há harða baráttu við Fylki um toppsætið. Fylkir er sem stendur í 2. sæti deildarinnar, stigi á eftir Keflavík en á einn leik til góða. Fylkiskonur unnu Hauka í gærkvöldi 4-0 og á mánudagskvöldið munu Keflavíkurkonur sækja Fylki heim í sannkölluðum toppslag deildarinnar.