Stórsigur í Sandgerði á næstefsta liði deildarinnar
Þróttarar geta því tryggt sér farseðilinn í Lengjudeildina í næsta leik
Reynismenn gerðu grönnum sínum í toppliði Þróttar mikinn greiða þegar þeir unnu stórsigur á KV sem er í öðru sæti annarrar deildar karla í knattspyrnu. Eftir markalausan fyrri hálfleik opnuðust allar flóðgáttir og voru fimm mörk skoruð í þeim síðari.
Það voru gestirnir sem komust yfir á 52. mínútu en Ivan Prskalo jafnaði skömmu síðar (61'). Heimamenn gerðu út um leikinn á nokkurra mínútna kafla með þremur mörkum. Magnús Sverrir Þorsteinsson kom Reynismönnum yfir með marki úr vítaspyrnu (76') og svo bætti bætti Kristófer Páll Viðarsson við tveimur mörkum til viðbótar (82' og 84').
Frábær sigur heimamanna og áhangendur Reynis fá svo sannarlega að sjá mörk þegar þeirra lið er að spila en síðustu fimm leikir Reynis hafa endað 4:1, allt heimasigrar og þrír þeirra hafa fallið Reyni í vil.
Með sigrinum eru Þróttarar komnir í kjöraðstöðu til að tryggja sér sæti í næstefstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins. Þróttur leikur gegn Völsungi, sem er í þriðja sæti deildarinnar, á laugardaginn og vinni Þróttarar þann leik hafa þeir tryggt sig upp um deild en þeir hafa nú fjögurra stiga forskot á KV sem er í öðru sæti. Reynir er í sjönda sæti og hefur tryggt sér áframhaldandi sæti í annarri deild að ári.
Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum í Sandgerði og tók þær myndir sem má sjá í meðfylgjandi myndasafni.