Stórsigur í Keflavík
Eftir slæma byrjun á Íslandsmótinu virðast Keflavíkurstúlkur vera farnar að sjá til sólar að nýju í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik. Þær tóku á móti Snæfelli í gærkvöldi og unnu stórsigur, 83-56.
Keflavíkurstúlkur mættu einbeittar og ákveðnar til leiks, spiluðu feiknasterkan varnarleik sem gestirnir áttu engin ráð við. Yfirburðir Keflavíkur voru algjörir og staðan eftir fyrsta leikhluta var 23:5.
Gestirnir úr Stykkishólmi virtust aðeins ná áttum í öðrum leikhluta þar sem þeir skoruðu 19 stig gegn jafnmörgum stigum Keflavíkur sem hafði 18 stiga forystu þegar flautað var til hálfleiks.
Sú forysta sem Keflavík náði í fyrsta leikhluta var einfaldega ofraun fyrir Snæfell sem náði aldrei að klóra í bakkann. Forysta Keflavíkur var komin í 26 stig fyrir síðasta leikhlutann og alveg ljóst í hvað stefndi.
Kristi Smith lofar góðu fyrir lið Keflavíkur en hún skoraði 21 stig í gær. Birna Valgarðsdóttir skoraði 15 stig. Þá hirti Bryndís Guðmundsdóttir 12 fráköst.
---
Mynd - Birna Valgarðsdóttir átti fínan leik í gær og var með 15 stig. Kristi Smith skoraði 21 stig.