Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stórsigur hjá Njarðvík í Ljónagryfjunni
Sunnudagur 17. febrúar 2008 kl. 21:51

Stórsigur hjá Njarðvík í Ljónagryfjunni

Njarðvíkingar sýndu vígtennurnar frá upphafi þegar Hamar kom í heimsókn í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Lokatölur leiksins voru 120-86 Njarðvíkingum í vil sem pressuðu stíft á gestina strax frá fyrstu mínútu. Brenton Birmingham var atkvæðamestur með 30 stig hjá Njarðvíkingum en hann var sjóðheitur frá upphafi og gerði 16 stig í fyrsta leikhluta.

Þó stigin kæmu á færibandi í fyrri hálfleik hjá grænum þá tókst þeim ekki að þétta vörnina og skoraði Hamar 53 stig á Njarðvík í fyrri hálfleik en staðan í leikhléi var 66-53 fyrir Njarðvík.

Hjörtur Hrafn Einarsson lék vel í Njarðvíkurliðinu í kvöld og gerði 17 stig en miðherjinn Egill Jónasson er enn fjarverandi sökum meiðsla. Jóhann Árni Ólafsson kom grimmur til leiks og vann fljótlega marga bolta fyrir Njarðvíkinga.

Í síðari hálfleik tókst heimamönnum að hrista gestina af sér svo um munaði og um leið þétta vörnina og gerðu Hamarsmenn aðeins 33 stig allan síðari hálfleikinn gegn 54 stigum Njarðvíkinga.

Eftir leiki kvöldsins eru þrjú lið jöfn með 20 stig í 4.-6. sæti. Njarðvík, Skallagrímur og Snæfell hafa öll 20 stig og berjast nú hart um að tryggja sér 4. sætið en Grindavík í 3. sæti hefur 26 stig.

Roni Leimu gerði 27 stig fyrir Hamar og Nicholas King 20 en ljóst er að Hamar verður að vinna alla næstu leiki sína til að bjarga sér frá falli í 1. deild.

Hjá Njarðvík gerði Brenton 30 stig, Damon Bailey 25, Hjörtur Hrafn 17 og Jóhann Árni Ólafsson 14.

VF-Mynd/ [email protected] - Hjörtur Hrafn Einarsson sækir að Hamarsmönnum.


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024