Stórsigur hjá Keflavík og Watson með annan stórleik fyrir Njarðvík
Bæði Njarðvík og Keflavík nældu sér í sigur í Iceland Express-deild karla í kvöld. Keflvíkingar fengu Ísfirðinga í heimsókn og Njarðvíkingar fóru á Ásvelli og öttu kappi við Hauka.
Eftir fyrsta leikhluta hjá Keflavík og KFÍ leit allt út fyrir spennandi leik, enda staðan frekar jöfn, 23-21 fyrir heimamenn. En Keflvíkingar voru ekki á þeim buxunum að hafa spennu í leiknum og Ísfirðingar sáu í raun aldrei til sólar það sem eftir lifði kvölds. Munurinn jókst jafnt og þétt og stórsigur niðurstaðan 123-87 fyrir Keflavík og Ísfirðingar munu því leika í fyrstu deild á næstu leiktíð. Stigaskor deildist jafnt á milli manna og voru sjö leikmenn hjá Keflavík í tveggjastafa tölum. Thomas Sanders var fremstur meðal jafningja með 23 stig/12 fráköst, Sigurður Þorsteinsson 17 stig, Hörður Axel Vilhjálmsson 11 stig/13 stoðsendingar.
Njarðvíkingar áttu afar þýðingarmikinn leik fyrir höndum í Hafnarfirði og ekkert annað en sigur dugði grænum. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann þrátt fyrir að Njarðvík hefði yfirhöndina bróðurpart leiks. Giordan Watson átti aftur stórleik fyrir Njarðvíkinga og fór svo að lokum að Njarðvíkingar höfðu sigur 80-72 þar sem Watson skoraði 33 stig hirti 7 fráköst og var með 9 stoðsendingar, sannarlega stórleikur hjá þessum öfluga bakverði. Hinir erlendu leikmenn Njarðvíkinga voru drjúgir, Nenad Tomasevic með 14 sig og Jonathan Moore með 12. Aðrir létu minna að sér kveða.
[email protected]