Störnuleikur KKÍ: 4 Suðurnesjamenn í byrjunarliði Suðurliðsins
Suðurnesjamenn eru áberandi í liðunum sem voru valin fyrir Stjörnuleik KKÍ sem fer fram næsta laugardag í Seljaskóla. Byrjunarliðin voru valin af almenningi sem kaus sína menn á heimasíðu Körfuknattleikssambandsins, www.kki.is.
Sigurður Á. Þorvaldsson úr Snæfelli hlaut langflest atkvæði að þessu sinni eða 316. Hann er jafnframt eini nýliðinn í byrjunarliði Norðurliðsins, hinir fjórir voru allir valdir í fyrra.
Annar í kosningunni varð KR-ingurinn Ingveldur Magni Hafsteinsson með 243 atkvæði, en aðrir leikmenn Norðurliðsins eru Hlynur Bæringsson, Snæfelli, Eiríkur Önundarson úr ÍR og Clifton Cook, Tindastóli.
Flest atkvæði í Suðurliðinu hlaut Páll Axel Vilbergsson UMFG, alls 209. Auk hans eru Njarðvíkingarnir Friðrik Stefánsson, Páll Kristinsson og Brandon Woudstra ásamt Pálma Sigurgeirssyni, Breiðabliki, í byrjunarliðinu. Friðrik og Pálmi eru einu mennirnir sem voru einnig í byrjunarliði Suðurliðsins í fyrra, en eftirtektarvert er að enginn Keflvíkingur er valinn af almenningi í ár.
Þjálfarar liðanna þeir Friðrik Ingi Rúnarsson UMFG og Bárður Eyþórsson Snæfelli munu á næstu dögum velja 7 leikmenn til viðbótar í stjörnuliðin.