Stórleikur Margrétar Köru tryggir sigur Keflavíkur
Margét Kara Sturludóttir átti stórleik fyrir Keflavík sem lagði ÍS í Iceland Express-deild kvenna í körfuknattleik í kvöld, 63-72.
Hún skoraði 22 stig, tók 16 fráköst og gaf 7 stoðsendingar auk þess að stela 7 boltum og verja 2 skot. TaKesha Watson kom henni næst með 21 stig. Leikurinn var jafn til að byrja með og í hálfleik var staðan 35-37 fyrir Keflavíkinga, en leikurinn fór fram í húsi KHÍ í Reykjavík.
Stigahæst Stúdína var Njarðvíkingurinn Lovísa Guðmundsdóttir sem gerði 19 stig.
Keflavík hefur þá unnið fyrstu þrjá leiki sína í deildinni, líkt og meistaralið Hauka, en Stúdínur hafa unnið einn af þremur.