Stórleikur Maceij dugði ekki til
Tindastólsliðið hélt áfram á sigurbraut með því að sigra Njarðvík í gærkvöldi og fékk að launum miða í undanúrslit bikarkeppninnar. Lokatölur 94-83 sem segir kannski ekki alla söguna því leikurinn var jafn meira og minna allan tíman og það var ekki fyrr en rétt í lokin sem Tindastólsmenn sigu fram úr eftir að Rikki og Curtis settu á svið stórskotasýningu.
Eins og allir vita þá hefur Tindastólsliðið verið á fullri siglingu undanfarið og þá er ekki langt síðan Tindastólsmenn sigruðu Njarðvíkinga í Njarðvík. Kannski af þessum tveimur ástæðum sem veðmálafyrirtækið Lengjan var með betri stuðul á Tindastólssigur í þessum leik en Njarðvíkursigur, örugglega fyrsti skipti á leiktíðinni sem Tindastóll mætir til leiks sem sigurstranglegri liðið. Tindastólsmenn byrjuðu líka eilítið betur og náðu nokkra stiga forskoti en Njarðvíkingar voru ekkert mættir í Skagafjörðinn til að láta vaða yfir sig. Þeir voru fljótir að jafna og eftir það skiptust liðin á forskotinu.
Ungu guttarnir í Njarðvíkurliðinu voru nefnilega að spila mjög vel, sérstaklega Maceij Baginski sem bauð upp á allskonar tilþrif í kvöld og Tindastólsliðið átti í mestu erfiðleikum með að stöðva strákinn. Það var síðan í stöðunni 73-73 og þrjár og hálf mínúta var eftir sem hlutirnir fóru að gerast fyrir alvöru. Mo byrjaði að setja niður tvö víti og síðan tók lögreglumaðurinn á Skagfirðingabrautinni við. Njarðvíkingar reyndu langa sendingu eftir vítin en Mo las leikinn vel og hirti boltann og fann Rikka á kantinum í þristinn. Svo strax í næstu sókn læddi Rikki sér í hornið og setti annan þrist og staðan orðin 81-73.
Njarðvíkingar tóku leikhlé og náðu eftir það að setja nokkur stig en Tindastólsmenn náðu að halda þeim í öruggri fjarlægð með tveimur þristum frá Curtis Allen og lokatölur eins og áður sagði 94-83.
Þrusuleikur sem liðin buðu upp á, Njarðvíkingar geta vel verið stoltir af sinni frammistöðu enda náðu þeir að velgja Tindastólsliðinu verulega undir uggum og voru ekkert langt frá því að hirða sigurinn í gærkvöldi. Tindastólsliðið stóðst hins vegar pressuna og þá má alveg segja að allir leikmenn liðsins hafi spilað vel. Allir voru að skila sínum hlutverkum vel en Bárður virðist vera kominn með nokkuð pottþétta níu manna rútínu þar sem allir leikmenn vita upp á hár við hverju er búist af þeim.
Í Njarðvíkurliðinu voru Holmes og Echols að skila stigum en eins og áður sagði þá var það Baginski sem sá um að draga vagninn. Spennandi leikmaður þar á ferðinni. Þá var einnig gaman að fylgjast með leikstjórnanda Njarðvíkinga, Elvari Friðrikssyni sem á ekki langt í að verða með betri íslenskum leikmönnum í deildarinnar. Segir kannski alla söguna að Elvar er einn af fáum íslenskum leikstjórnendum í deildinni enda hefur það verið mikil tíska síðustu ár í deildinni að lið hafa fengið atvinnumann að erlendum uppruna til að sinna þessari mikilvægustu stöðu körfuknattleiksins.
Njarðvík: Maciej Stanislav Baginski 27, Travis Holmes 23/7 fráköst, Cameron Echols 17/9 fráköst, Elvar Már Friðriksson 8/7 stoðsendingar, Rúnar Ingi Erlingsson 4, Ólafur Helgi Jónsson 2/5 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 2/4 fráköst
Tindastoll.is greinir frá.
Mynd: Maceij Baginski átti frábæran leik fyrir græna í gær er það dugði þó ekki til