Stórleikur í Sláturhúsinu: Dettur þú í lukkupottinn?
Hart verður barist þegar Keflavík tekur á móti Snæfell í síðari viðureign liðanna í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Leikurinn hefst kl. 19:15 og er hann Iceland Express leikur Keflavíkur. Hvert lið fær að halda happadrætti á einum heimaleik sínum í vetur þar sem heppinn áhorfandi er dreginn út og fær í verðlaun ferðavinning á einn af fjölmörgum áfangastöðum Iceland Express.
Ekki vantaði upp á spennuna í viðureign liðanna í upphafi tímabils. Liðin mættust í 2. umferð deildarinnar þann 19. október í Stykkishólmi þar sem Keflavík fór með nauman 109-113 sigur af hólmi eftir framlengdan spennuleik.
Keflvíkngar máttu sætta sig við ósigur gegn Grindavík í síðasta leik en Snæfell hafði góðan heimasigur gegn Njarðvíkingum í Hólminum á dögunum. Það verður því hart barist sem fyrr í þessari rimmu kvöldsins en viðureignir Keflavíkur og Snæfells hafa verið hið mesta augnayndi síðustu ár.
Keflvíkingar eru enn á toppi deildarinnar með 20 stig eins og KR og geta í kvöld komið sér einir aftur á toppinn en Snæfell hefur 12 stig í 6. sæti deildarinnar og með sigri í kvöld geta þeir jafnað granna sína í Borgarnesi að stigum en Skallagrímur hefur 14 stig eftir spennusigur á Hamri í Hveragerði í gærkvöldi.
Það ætti því enginn Kevflvíkingur eða körfuknattleiksáhugamaður að láta sig vanta í Sláturhúsið í kvöld.