Stórleikur í körfunni í kvöld! Keflavík tekur á móti Njarðvík
Í kvöld fer fram leikur sem margir hafa beðið með óþreyju. Þá mætast erkifjendurnir Keflavík og Njarðvík á heimavelli hinna fyrrnefndu. Ekki þarf að fara mörgum orðum um söguna sem þessi lið hafa á milli sín, en nú hafa Keflvíkingar harma að hefna þar sem Njarðvíkingar sigruðu í tveimur viðureignum liðanna fyrir áramót. Nú ber hins vegar svo undir að liðin mætast tvisvar sinnum með nokkurra daga millibili. Fyrri rimman verður i „Sláturhúsinu“ í kvöld, en um næstu helgi mætast þau á ný í úrslitum Bikarkeppni KKÍ. Því fer þó fjarri að leikurinn í kvöld sé einungis upphitun fyrir bikarleikinn þar sem liðin eru í toppbaráttu Intersport-deildarinnar sem hefur sjaldan verið eins spennandi og má hvorugt við því að missa af stigum.
Í báðum liðum eru lykilmenn fjarverandi vegna meiðsla. Njarðvíkingurinn Brenton Birmingham meiddist illa á kálfa í leiknum gegn Snæfelli á dögunum og er óvíst hvenær hann muni snúa aftur. Þá verður Fannar Ólafsson ekki með Keflavíkingum næstu vikurnar, en hann brotnaði á fingri í sínum fyrsta leik fyrir félagið eftir að hafa snúið aftur úr bandaríska háskólaboltanum. Auk þess verður Keflavíkurliðið án Fals Harðarsonar, sem er að ná sér eftir hnéaðgerð, en hann er stigahæstur Íslendinga í liðinu.
Það sem mun ráða úrslitum í kvöld verður því eflaust hið margumtalaða dagsform auk þess sem stuðningur áhorfenda er liðunum að sjálfsögðu mikilvægur. Keflvíkingar hafa ekki tapað á heimavelli gegn íslensku liði í 32 heimaleikjum og hefur frábæra stuðningsmannasveit að baki sér, en Njarðvíkingar láta þá varla slá sig út af laginu og mæta galvaskir til leiks og styðja sína menn. Víkurfréttir skora á alla sem vettlingi geta valdið að mæta til leiks og sýna öllum hvaða sess körfuboltinn hefur hér í Reykjanesbæ. Leikurinn hefst kl. 19.15.