Stórleikur í körfunni í kvöld
Það verður sannkallaður stórleikur í 4-liða úrslitum bikarkeppni kvenna í körfuknattleik í kvöld þegar nágrannaliðin Keflavík og Grindavík mætast í Grindavík. Keflavíkurstúlkur hafa farið hamförum það sem af er tímabilinu og virðist fátt geta stöðvað þær um þessar mundir. Grindavíkurstúlkur geta þó á góðum degi unnið hvaða lið sem er enda með besta erlenda leikmann landsins í sínum röðum ásamt því að eiga ungar og sprækar stúlkur í bland. Leikurinn hefst kl. 19:15 og eru Suðurnesjamenn hvattir til að fjölmenna á leikinn og fylgjast með körfuboltaleik eins og þeir gerast skemmtilegastir.